Þetta voru dökkklæddir menn, sem töluðu ekki um mat, heldur um afurðir, einingar, flök eða blokkir. Það voru þátttakendur heimsráðstefnu frystiiðnaðar í Nizza, sem alþjóðablaðið International Herald Tribune gerði grín að um daginn í grein yfir þvera baksíðuna.
Með greininni fylgdi skrípamynd eftir Niculae Asciu, sem sýndi dökkklæddu mennina lokaða við frystikisturnar inni í fílabeinsturni sínum, meðan allt iðaði af lífi og fjöri og gerlum á ferskvörumarkaðinum í Cours Saleya, nokkur hundruð metra frá ráðstefnunni.
International Herald Tribune sagði, að frystimennirnir hefðu á ráðstefnunni verið að fárast yfir, að almenningur tæki í vaxandi mæli ferska vöru fram yfir frysta. Bætt flutningatækni og gæðaeftirlit hefur innleitt ferska vöru á ný til vegs og virðingar.
Heimsráðstefna frystimanna hefði átt að fá forneskjuna beint í æð með því að láta sjávarútvegsráðherra Íslendinga segja frá, hvernig hann fór að því að takmarka sölu á ferskum fiski frá Íslandi. Það hefði líklega þítt freðin hjörtu dökkklæddu mannanna.
Heimsráðstefna frystimanna hefði líka átt að fá formann Landssambands íslenzkra útvegsmanna til að segja frá, hvernig honum tækist enn á tölvu- og telexöld að hrúga mestöllum ferskfiski landsins inn á örfáa markaði, í stað þess að haga seglum eftir vindi.
Á sama tíma eru framtakssamir Íslendingar að tengjast gagnabanka, sem gefur upplýsingar um verð morgunsins á fjölda fiskmarkaða, einkum í Evrópu, rétt eins og DV gefur á hverjum degi upplýsingar um verð á innlendu fiskmörkuðunum. Þetta er nýjung hér á landi.
Gagnabankinn leiðir í ljós, að skortur er á ferskum fiski og að verðlag er hátt á flestum mörkuðum, þótt mikið framboð og lágt verð sé á þeim mörkuðum, sem íhaldssamir Íslendingar nota. Aðeins sjö aðilar á Íslandi eru tengdir tuttugustu öldinni á þennan hátt.
Á Bretlandi hefur verð á þorski verið um 87 krónur á kíló að meðaltali síðustu daga. Augljóst er, að íslenzkir ráðherrar, sem skammta útflutning á ferskfiski, valda þjóðarbúinu miklu tjóni, að því er virðist til að þjóna úreltum sérhagsmunum frystiiðnaðarins í landinu.
Verð á innlendum mörkuðum er fremur lágt um þessar mundir, enda er sumum fiskvinnslustöðvum lokað vegna sumarleyfa eða þær hafa ekki fólk til að bjarga fiskinum sómasamlega undan skemmdum. Á sama tíma er þjóðarbúinu neitað um 87 króna verð í Evrópu.
Sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra eru báðir úr Framsóknarflokknum. Þeir höfðu samráð á föstudaginn um að banna útflutning 550 tonna í þessari viku, en hleypa 650 tonnum í gegn. Með banni einnar viku skaða ráðherrarnir þjóðarbúið um 50 milljónir króna.
Sú hugsun er áleitin, að skemmdarverk ráðherranna sé til að útvega frystihúsum samvinnufélaganna meira af ódýrum fiski. Þeir, sem ekki hlutu náð við hið leynilega skömmtunarborð ráðherranna, telja svo, að fjórir aðilar hafi fengið óeðlilegan forgang í skömmtuninni.
Meðan íslenzkir ráðherrar eru önnum kafnir við að raka saman völdum sem skömmtunarstjórar í eysteinskum stíl og reyra sjávarútveginn í viðjar hafta-, kvóta- og fátæktarkerfis, er komin til sögunnar tækni, sem gerir þjóðinni kleift að nota erlenda markaði.
Næsta heimsþing frystivöru ætti að halda á Íslandi, undir vernd ráðherranna tveggja. Hér á landi ríkir einmitt rétta forneskjan fyrir þing af slíku tagi.
Jónas Kristjánsson
DV