Listrænn landbúnaður

Greinar

Málsvarar hins hefðbundna landbúnaðar hafa tekið undir skemmtilegar hugmyndir í fjölmiðlum um, að fremur beri að líta á búsýslu sem listgrein en sem at vinnuveg. Þeir telja, að leggja verði listrænt eða menningarlegt mat á landbúnað og kostnaðinn við hann.

Líta má svo á, að íslenzkur landbúnaður hafi svo mikið listrænt og menningarlegt gildi, að réttmætt sé að hlúa að honum í samkeppni við útlendan landbúnað. Það er nokkurn veginn alveg eins og við höldum uppi Þjóðleikhúsi, Sinfóníuhljómsveit og Kvikmyndasjóði.

Málsvarar landbúnaðarins eru ósköp fegnir að geta fallizt á, að í rauninni sé landbúnaður mikill fjárhagslegur baggi. Þeim er léttir að fá að viðurkenna, að frjáls innflutningur erlendrar búvöru mundi lækka matvöruverð og bæta þar með lífskjör fólksins í landinu.

Þeir hafa dregið upp mynd af verzlunum, sem fyllist af “mjög ódýrum, erlendum matvælum”; af innlendri framleiðslu, sem seljist ekki; af gríðarlegum fólksflutningum til útgerðarstaða og Reykjavíkur; af dýrri húsbyggingaþörf; og af hræðilegu borgríki framtíðarinnar.

Málsvarar landbúnaðarins benda á, að talin sé menningarleg eða listræn ástæða til að halda uppi sinfóníuhljómsveit, þótt hægt sé fyrir lítið fé að hlusta á erlenda hljóðfæraleikara á Listahátíð og kaupa vandaða tónlist á geisladiskum frá útlöndum fyrir enn minni peninga.

Ekki má gleyma, að í listum veitum við okkur hvort tveggja, aðgang að erlendri og innlendri list. Engar hömlur eru lagðar á innflutning erlendrar listar eða menningar. Engir tollar eru á erlendum bókum, listatímaritum, nótubókum, málverkum eða höggmyndum.

Engum dettur í hug að banna innflutning erlends listafólks til að taka þátt í listahátíð eða hvenær sem okkur langar annars til. Við verjum gjaldeyri til að fá hingað tónlistarfólk og leikara, auk þess sem við kaupum afurðir þeirra í þeim mæli, sem okkur þóknast.

Yfir okkur situr enginn alfaðir í ráðuneyti til að ákveða, hvort okkur sé fyrir beztu að neyta erlendrar eða innlendrar listar. Við fáum að ráða því sjálf. Við höfum hins vegar marga alfeður, sem ákveða, að okkur sé fyrir beztu að nota ekki ýmsa erlenda búvöru.

Til þess að styðja innlenda list í samkeppni við erlenda og halda menningarlegri reisn verjum við í ár 629 milljón krónum á fjárlögum. Til þess að koma út óseljanlegri búvöru og halda þar með menningarlegri og listrænni reisn í landbúnaði verjum við 3.361 milljónum.

Ef meta ætti afurðir kinda og kúa til jafns við allar aðrar afurðir lista samanlagt, en ekki fimm sinnum hærra, þyrftu framlög til venjulegra lista að hækka um meira en milljarð króna og framlög til hefðbundins land búnaðar að lækka um meira en milljarð til jafnvægis.

Eðlilegt framhald af almennri viðurkenningu á varðveizlu kúa og kinda sem helmingi af allri list í landinu, væri að skera niður opinber framlög til landbúnaðar og nota féð til að styðja hinn helminginn. Varla er hægt að líta á landbúnað sem meira en helming allrar listar.

Ennfremur er eðlilegt framhald, að leyfður verði tollfrjáls innflutningur erlendrar búvöru, svo að fólk geti veitt sér aðgang að erlendri list á því sviði, svo sem að fimm krónu smjöri frá Evrópubandalaginu, eins og það veitir sér í öðrum listgreinum, ef það kærir sig um.

Óravegur er frá peningalegri viðurkenningu á menningarlegu og listrænu gildi landbúnaðar yfir í árlega milljarðaútgerð á herðum 240 þúsund manna þjóðar.

Jónas Kristjánsson

DV