Skipulagt með skömmtun

Greinar

Hin vikulega biðröð í Tryggvagötunni eftir leyfi til að afla gjaldeyris með því að flytja út ferskan fisk hefur lengzt úr hálfum sólarhring í hálfan annan. Ekki er vitað til, að biðraðir í Sovétríkjunum hafi náð svo háum aldri, þegar ástandið var sem verst þar eystra.

Biðraðirnar, sem Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur komið á fót í Tryggvagötunni, eru þó skárri en pukrið, sem sjávarútvegsráðherra hefur efnt til í ráðuneyti sínu í sama skyni. Menn fá þó afgreiðslu hjá landssambandinu, ef þeir hafa úthald til að bíða.

Eins og íslenzks stjórnvitrings er von og vísa hefur sjávarútvegsráðherra bannað, að upplýst sé, hverjir hafi hverju sinni náðarsamlegast fengið leyfi til að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið með því að flytja út ferskan fisk. Niðurstaða skömmtunar hans er leyndarmál.

Þjóðin sættir sig nokkurn veginn við þetta ástand, sem á sér ekki margar hliðstæður í nálægum löndum. Fólk vill í rauninni skömmtun og biðraðir, ef ekki þarf að nefna hlutina þessum réttu nöfnum, heldur öðrum nöfnum á borð við “kvóta” eða “niðurfærslu”.

Ef frjáls markaður fær áhrif á einhverju sviði, svo sem tíðkast í útlandinu, verður fljótlega mikil reiði í garð hans. Almenningur og stjórnmálamenn ráðast á “gráan markað” og fá svartan í hausinn. Þjóðin hamast gegn “vaxtaokri” og rænir gamla fólkið um leið.

Í raun byggist þessi munur Íslands og nálægra landa aðallega á því, að hér vilja menn skipuleggja vandamál, sem upp koma. Þessi vandamál stafa yfirleitt af fyrra skipulagi sömu vandamála á lægra stigi. Afleiðingin er meiri vandamál, sem þarf að skipuleggja meira.

Þetta skýrir viðgang Framsóknarstefnu hjá flestum, ef ekki öllum stjórnmálaflokkum hér á landi. Þannig hefur landbúnaðurinn verið rústaður sem atvinnuvegur og honum breytt í félagsmálastofnun, er brennir milljörðum af peningum skattborgaranna á hverju ári.

Meðan Jón Helgason hefur haft lítið að gera að bæta við nokkrum refabúum og graskögglaverum, hefur Halldór Ásgrímsson haft mikil umsvif við að drepa sjávarútveginn, sem var hornsteinn þjóðfélagsins, áður en hinn mikli skömmtunar- og kvótastjóri komst til valda.

Sjávarútvegsráðherra hefur gott lag á skömmtunarkerfinu. Hann lætur til dæmis stjórnendur Landssambands íslenzkra útvegsmanna éta úr lófa sér með því að afhenda þeim lítinn hluta skömmtunarvaldsins, svo að þeir hafi líka eitthvað til að leika sér að.

Þjóðarvilji og ráðherrahagsmunir fara saman og orsaka hinn sérstæða íslenzka efnahagsvanda, sem magnaður er með endalausum handaflsgerðum í vöxtum, gengisskráningu, seðlaprentun, niðurgreiðslum, millifærslum, uppbótum, niðurfærslum og allskynsfærslum.

Ráðherrar hafa skömmtunarvaldið, sem byggzt hefur upp í mörgum handaflsgerðum á löngum tíma. Það er valdið, sem máli skiptir í skömmtunarríki. Fyrir því valdi krjúpa flestir, líka þeir, sem verið er að misþyrma hverju sinni. Og margir vilja hlutdeild í þessu valdi.

Vegna alls þessa er ástæðulaust að gera því skóna, að ríkisstjórnin muni springa í loft upp, þótt ráðherrar séu ósammála um, hvort skammta skuli upp, niður, út eða suður. Þeir eru sammála um, að skammta þurfi, og að heppilegast sé, að þeir sjálfir sjái um skömmtunina.

Sá, sem orðinn er skömmtunarstjóri, hættir því ekki af fúsum vilja. Því mun ríkisstjórnin hanga áfram og reyna að skipuleggja heimagerða vandann enn frekar.

Jónas Kristjánsson

DV