Látið okkur í friði

Greinar

Í ævintýrið um nýju fötin keisararns vantar kaflann um samskipti ráðherranna, sem deildu um, hvort fötin hefðu verið rauð eða græn, köflótt eða teinótt, úr líni eða silki. Kaflinn er líkur þeim, sem við fylgjumst með í harmþrunginni spennusögu núverandi ríkisstjórnar.

Ráðherrar okkar búa í þjóðfélagi, þar sem vaxtarverkir eru miklir. Hvarvetna má sjá framtak, sem kostar lánsfé. Alls staðar er auglýst eftir fólki til starfa. Peningar eru dýrir, af því að skortur er á þeim. Og ýmsir starfsmenn eru dýrir, af því að skortur er á þeim.

Mikla skipulagshyggju þarf til að búa til kreppu úr þessu ástandi. En það hefur ríkisstjórninni tekizt. Hún hefur komið sér upp ímyndunarheimi, sem haldið er við af hagfræðingum og blaðamönnum, sem eru að vinna sig í álit hjá valdamönnum í þjóðfélaginu.

Ríkisstjórnin gæti vel vitað eins og við hin, að erlendum ferðamönnum hefur fækkað, af því að gengi krónunnar er of hátt skráð. Okkur munar lítið um þessa ferðamenn, en þeir eru þó eins konar hitamælir, sem segir okkur sögu, er ríkisstjórnin neitar að hlusta á.

Skipulagshyggja ríkisstjórnarinnar og ráðunauta hennar einkennist af þeirri skoðun, að sjúkdómarnir byggist á og felist í háum hita. Aðgerðir þeirra beinast því að hitamælum af ýmsu tagi. Til dæmis er breytt tölum á skölum eða hitamælar hreinlega bannaðir.

Hornsteinn vandamálafræða ríkisstjórnarinnar er, að krónugengið megi ekki falla eða að minnsta kosti ekki meira en 3%. Hagfræðingar hennar hafa nefnilega reiknað út, að gengislækkanir étist upp, en endist ekki. Í draumaheimi heimta menn varanlegar lausnir.

Mönnum væri hollt að hugleiða, hvort sífelldar gengislækkanir síðustu áratugi hafi framleitt kreppu í þjóðfélaginu eða komið því á hausinn. Ekki mundi saka að hugleiða, hvert ástandið væri nú, ef gengi krónunnar hefði ekki sífellt verið lækkað, þegar syrti í álinn.

Annar hornsteinn skottulæknanna er, að vextir þurfi að lækka og helzt raunvextir líka. Í alvörulöndum eru þó háir og hækkandi vextir taldir vænlegir til að draga úr of mikilli þenslu og skapa meira jafnvægi í athafnaþránni. En ráðherrarnir lifa ekki í alvörulandi.

Þriðji hornsteinn ráðherranna er, að einstæðu mæðurnar og annað láglaunafólk sé á of háu kaupi. Þess vegna er kastað fram geðveikislegum hugmyndum um að færa lágu launin í landinu niður um 9% og flytja þannig nokkra milljarða árlega frá fátækum til ríkra.

Reynslan og skynsemin segja okkur, að launafrysting og launalækkun gilda aðeins um láglaunafólk, en ekki um þá, sem njóta launaskriðs. Þessar aðhaldsaðgerðir ná ekki heldur til forstjóra, sem eru svo önnum kafnir við laxveiðar, að fyrirtæki þeirra eru að fara á hausinn.

Forstjóranefndin, sem skipuð var til að bjarga málum, er dæmigerð fyrir lánleysi ríkisstjórnarinnar og raunar upphaf vandræða hennar. Forstjórarnir sáu það ráð helzt til bjargar, að ríkisstjórnin ómerkti kjarasamninga, sem forstjórarnir voru nýlega búnir að undirrita.

Þegar hornsteinar stjórnvaldsgerða eru slíkir, getur niðurstaðan aðeins falizt í sjóðandi rugli á borð við niðurfærslur, millifærslur eða annað ómengað handafl, sem lögmál lífsins munu síðan ómerkja. Þannig bakar stjórnin þjóðinni efnahagsvandræði af pólitískum toga.

Gott væri að fá einhvern tíma ríkisstjórn, sem reyndi að passa peningakassann sinn og færi að því hollráði vitringsins Lao Tse að láta fólkið í landinu í friði.

Jónas Kristjánsson

DV