Íslenzka þjóðin er svo stórauðug, að ríkisstjórn hennar gerði samgönguráðherra sinn út til Seoul að afla forsendu fyrir byggingu eins milljarðs króna handboltahallar í Laugardal. Hlaut ráðherrann hálfan sigur í þeirri ferð, því að höllina þarf að reisa fyrir árið 1995.
Fyrstu áætlanir um hallarsmíðina hafa 300 milljónir króna að niðurstöðutölum. Eftir teikningum að dæma er kostnaður varlega áætlaður. Auðvelt á að vera að nota gamalreynda aðferð og margfalda óskhyggjuna með 3,3 til að fá raunveruleika upp á milljarð.
Á sama tíma og ríkisstjórnin sendir ráðherra í mikilmennaleik af þessu tagi eru hinir ráðherrarnir að hnakkrífast um, hvernig fá megi botn í fjárhag ríkissjóðs og nokkurra helztu atvinnuvega landsins. Það er eins og þeir séu búnir að gleyma, hversu ríkir þeir eru.
Við nánari athugun verður þó ljóst, að beint samband er milli handboltahallarinnar og stjórnarkreppunnar. Ráðherrar, sem í ölæði atkvæðakaupa að kvöldlagi strá þjóðarpeningunum í kringum sig, vakna að morgni með alvarlega timburmenn og galtómt ávísanahefti.
Þess er skemmst að minnast, að fjármálaráðherra gerði sig breiðan á dögunum vegna umframeyðslu ýmissa opinberra stofnana og kallaði forstöðumenn þeirra “síbrotamenn”. Hann snarþagnaði svo, er í ljós kom, að ráðherrarnir voru mestu síbrotamennirnir.
Í rauninni býr þjóðin aðeins við tvo meginvanda. Annar er stjórnlaust sukk þessarar ríkisstjórnar og þeirra, sem á undan henni voru. Hinn er gersamlega ástæðulaus sannfæring ráðherra, að þeir séu bezt fallnir til að stjórna fjármálum og hagmálum atvinnulífsins.
Einkennilegt er, að menn, sem mega ekki svo sjá eina krónu, að þeir eyði henni ekki fjórum sinnum samtímis, með aðstoð efnahagsráðgjafa, skuli ímynda sér, að þeir bæti efnahagsástandið með því að ákveða í smáatriðum, hvernig efnahagslífið skuli vera í landinu.
Ráðherrar, sem samþykkja handboltahöll á færibandi, telja sig geta ákveðið, hvert skuli vera gengi krónunnar, hvaða vextir fjárskuldbindinga henti þjóðinni, hvaða sjóði skuli tæma hverju sinni, hversu mikinn landbúnað þjóðin þoli og hverjir megi afla gjaldeyris.
Ráðherrar, sem eru einhuga um, að hinni mikillátu þjóð dugi ekkert minna en eins milljarðs handboltahöll, eru nú að þrátta um, hvaða millifærslur, niðurfærslur, bakfærslur, allskynsfærslur og undanfærslur séu heppilegastar til að rupla þjóðina eina ferðina enn.
Ef ríkisstjórnin sæi hið augljósa, að gengi krónunnar eigi að finna sjálft sitt jafnvægi, að vextir fjárskuldbindinga eigi að finna sjálfir sitt jafnvægi, að ekki skuli millifæra, niðurfæra, bakfæra, allskynsfæra og undanfæra í efnahagskerfinu, má fara að ræða handboltahöll.
Ef ríkisstjórnin hættir að halda uppi krónugengi með handafli, hættir að halda niðri vöxtum með handafli, hættir að millifæra hluti bakatil í atvinnulífinu, verður þjóðin fljótlega svo rík, að hana munar ekkert um að reisa handboltahöll fyrir einn milljarð króna.
Ef ríkisstjórnin vildi þar á ofan gera svo vel að eyða sjálf ekki um efni fram og héldi sér, án aukinnar skattheimtu, innan við ramma fjárlaga og lánsfjárlaga, mundi hún stuðla að minni spennu og léttbærara frelsi í gengisskráningu, vöxtum og athafnalífi yfirleitt.
Þá mundum við léttilega hafa efni á hálfs milljarðs þjóðminjasafni og hálfs milljarðs náttúrugripasafni ofan á eins milljarðs handboltahöll. Og þótt fleira væri.
Jónas Kristjánsson
DV