Aldraður maður fylgdi nýju ríkisstjórninni úr hlaði í fréttaleikhúsum þjóðarinnar. Hann sagðist hafa gefið eftir ráðherrastól, því að hann fengi mikil völd við að dreifa þremur til fjórum milljörðum af fé almennings og héldi öðrum störfum sínum við skömmtunarstjórn.
Í öðru leikhúsinu var reiknað út, að tekjur Stefáns Valgeirssonar væru þegar meiri en ráðherratekjur. Það er áður en búið er að ákveða, hvað hann fái fyrir að stjórna hinum nýja velferðarsjóði illa rekinna fyrirtækja og annarra gæludýra ríkisstjórnarinnar.
Í sjálfu sér skiptir minnstu, hvað holdtekja Samtaka jafnréttis og félagshyggju fær fyrir að skipuleggja forneskjuna, sem nýja ríkisstjórnin hefur ákveðið að innleiða. Mestu máli skiptir, að þjóðin horfði á Stefán og skildi á augabragði, hvaða ríkisstjórn hún var að fá.
Þjóðin hefur fengið ríkisstjórn, sem hefur að meginmarkmiði þá stefnu Framsóknarflokksins að flytja allmarga milljarða frá almenningi til fyrirtækja, einkum þeirra fyrirtækja, sem hafa safnað skuldum í trausti þess, að stjórnmálamenn björguðu þeim fyrir horn.
Kostirnir, sem stjórnmálamennirnir deildu um, áður en þeir náðu samkomulagi, snerust engir um efnahagsúrbætur. Þeir snerust allir um, hvernig mætti sem hljóðlegast laumast ofan í vasa þjóðarinnar til að bjarga Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og fyrirtækjum þess.
Eftir mikið þjark um það, sem stjórnmálamenn kalla niðurfærslur, uppfærslur, millifærslur og bakfærslur, en eins mætti kalla bókfærslur eða undanfærslur, höfum við nú fengið niðurstöðu, sem sameinar flest hið versta í hugmyndunum, er fram hafa komið í haust.
Milljarðarnir, sem sogaðir verða í sjóðina, koma beint og óbeint úr vasa almennings. Sumpart verða þeir fengnir að láni í útlöndum, en rukkanir um vexti og afborganir sendar börnum okkar. Hvorki innlendir né erlendir milljarðar verða galdraðir upp úr hatti.
Þetta er nokkurn veginn hið sama og gert hefur verið undanfarin ár. Munurinn er aðallega sá, að fráhvarfið frá velferðarríki fólksins yfir í velferðarríki fyrirtækjanna verður við stjórnarskiptin eindregnara og harðskeyttara en verið hefur í tæpa þrjá áratugi.
Afleiðingar lífskjaraskerðingarinnar verða margvíslegar. Verðlaunaveitingar til skussa munu halda aftur af framleiðni í þjóðfélaginu og koma í veg fyrir, að þjóðin fái ránsféð til baka í auknum þjóðartekjum. Þær munu magna þensluna og kynda undir verðbólgu.
Ríkisstjórnin hefur farið af stað með miklum bægslagangi hins nýja fjármálaráðherra, sem segist ætla að sækja peningana, sem þarf, í hendur svokallaðra fjármagnseigenda. Líklega væri hann fær um að gera heilt sólkerfi gjaldþrota, ef hann fengi að ráða einn.
Sem betur fer hefur ríkisstjórnin ekki mátt til langvinnrar uppbyggingar á velferðarkerfi fyrirtækjanna. Einstakir þingmenn á borð við Karvel Pálmason og Ólaf Þórðarson munu fljótlega átta sig á, hvert stefnir. Hinn svokallaði meirihluti mun gufa upp í vetur.
Yfirlýsing Ólafs Ragnars Grímssonar um upptöku sparifjár stuðlar að hvarfi fjármagns úr bönkum og öðrum varðveizlustofnunum. Hún var afar tímabær á fyrsta degi hinnar nýju ríkisstjórnar, enda spillir hún fyrir því, að ríkisstjórnin nái ránsfengnum.
Rembingur ráðherrans segir þjóðinni þó ekki eins skýra sögu og hæglát framkoma öldungsins, sem hyggst nú verða meiri skömmtunarstjóri en nokkru sinni fyrr.
Jónas Kristjánsson
DV