Lýðræðið þynnist

Greinar

Steingrímur Hermannsson er siðferðilega og lýðræðislega á óvenjulega hálum ís, þegar hann setur víðtæk bráðabirgðalög aðeins tólf dögum fyrir setningu Alþingis, án þess að hafa sýnt fram á, að hann hafi þingmeirihluta til að fá lögin samþykkt í neðri deild.

Þegar forsætisráðherra rambar þannig á barmi stjórnarskrárbrota, er brýnt, að bráðabirgðalögin fái aðra og skjótari meðferð á þingi en slík lög hafa fengið, þegar öllum

er ljóst, að þingmeirihluti er fyrir þeim og að staðfestingin er lítið annað en formsatriði. Stjórnarandstaðan getur stuðlað að lýðræðislegri meðferð þessa vafamáls með því að krefjast þess, að bráðabirgðalögin verði tekin fyrir fyrst allra mála á Alþingi, og fylgja kröfunni eftir með því að neita að fjalla um önnur mál, fyrr en þetta er afgreitt.

Í stjórnarandstöðunni verða vafalítið uppi efasemdir um, að hagkvæmt sé að veitast þannig að ríkisstjórninni í upphafi ferils hennar, þegar samúð fólks með henni er í hámarki. Ýmsir munu telja heppilegra að nota frekar tækifærið síðar, þegar betur standi á.

Skoðanakönnun DV, sem birt var í gær, bendir til, að stjórnin njóti núna, við upphaf ferils síns, eindregins fylgis meirihluta þjóðarinnar. Slíkur stuðningur er hefðbundinn, þegar ríkisstjórnir ýta úr vör. En í þetta sinn er stuðningur fólksins óvenjulega mikill, 65%.

Ríkisstjórnin er því ekki árennileg þessa dagana. Íslendingar hafa greinilega ekki látið af konunghollustu sinni, þótt hún beinist nú að nýjum ríkisstjórnum. Við virðumst jafnan reiðubúin að fylgja foringjunum, unz komið hefur í ljós, hvort þeir duga eða duga ekki.

Hins vegar má benda á, að stjórnarandstaðan hefur skyldur við lýðræðið alveg eins og stjórnin. Ef forsætisráðherra hefur teflt skákina út af taflborðinu, ber stjórnarandstöðunni að koma henni inn á borðið aftur, svo að taflreglurnar komist sem fyrst í lag aftur.

Bráðabirgðalög eru misnotuð hér á landi. Í upphafi lýðræðis á Vesturlöndum var Estrupska af slíku tagi eitur í beinum lýðræðissinna. Við erum hins vegar orðin of léttúðug í þessum efnum. Nýjustu bráðabirgðalögin fela í sér aukna misnotkun, sem ber að forðast.

Stjórnarandstaðan getur leitað trausts í þeirri staðreynd, að hin sama skoðanakönnun DV, sem vísað var til hér að ofan, sýndi, að stjórnarflokkarnir eru sem flokkar í algerum minnihluta meðal þjóðarinnar, samanlagt með aðeins 43% fylgi allra, er hafa skoðun.

Þetta bendir til, að stuðningur þjóðarinnar við hina nýju ríkisstjórn í upphafi ferils hennar sé á hefðbundnum, veikum grunni reistur og muni rjúka út í veður og vind mun hraðar en stuðningurinn, sem síðasta ríkisstjórn naut í upphafi vegferðar sinnar fyrir rúmu ári.

Til hvatningar atlögu að bráðabirgðalögunum má benda á, að hún mundi líka hreinsa andrúmsloftið og leiða í ljós, hvort forsætisráðherra hefur einhvern huldumann í neðri deild til að fleyta sér yfir aðgerðir, er Alþingi, en ekki hann, á að ákveða, lögum samkvæmt.

Því miður bendir fátt til, að stjórnarandstaðan hafi í heild kjark til að verja leikreglur lýðræðisins með þessum hætti. Þess vegna er líklegt, að þjóðin verði að bergja til botns bikarinn, sem henni hefur verið réttur í bráðabirgðalögum. Skólagjöldin verða há í skóla reynslunnar.

Alvarlegra er þó, að kjarkleysi af hálfu stjórnarandstöðu mun skapa enn eitt fordæmi handa stjórnvöldum á leið þeirra í burt frá lýðræðislegum vinnubrögðum.

Jónas Kristjánsson

DV