Mikil heift getur rúmast í litlum flokki. Samfylkingin vandist því að ráfa um grafarbakkann í friði kirkjugarðsins. Þar hefur engum bátum verið ruggað. Þar hefur fólk ekki klórað sér í höfðinu út af smánarlitlu fylgi við kjöraðstæður, stjórnarandstöðu gegn bófaflokkum. Tveggja turna talið er löngu gleymt. Fólkið pússaði gleraugun sín á ríkiskontórum sínum. Óvænt er svo spýtt í framboð til formanns og þá fá svefngenglarnir hjartaáfall. Rónni hafði verið raskað, æpt er um lúalegt herbragð, þaulskipulagt banatilræði, illvirki, misráðið framboð. Furðulegt er, hversu mikil heift getur rúmast í litlum flokki á grafarbakka.