Alvöru kortagerð var lítil hér í nærri heila öld. Herforingjaráðskortin dönsku voru svo frábær, að litlu var þar við að bæta. Voru fagurlega teiknuð í byrjun 20. aldar og sýndu veruleikann. Í endurprentunum var fljótlega farið að falsa kortin að óskum bænda að sovézkri fyrirmynd. Vildu ekki sjá þjóðleiðir í sínu landi. Með tilkomu GPS gervihnattamælinga undir lok 20 aldar fór þetta svo að lagast. Einnig birtust kort ferða- og útivistarstofa sveitarfélaga, árbækur Ferðafélags Íslands og kortavefur Landssambands hestamanna. Ég safnaði slíkum heimildum 2011 í kortabókina Þúsund og eina þjóðleið, sem er uppseld, en fæst á bókasöfnum.