Ef námslán ganga ekki kaupum og sölum eins og önnur gæði, sem skömmtuð eru af hinu opinbera, hafa þau sérstöðu. Fréttir hafa birzt af kaupum og sölu á flestum öðrum forréttindum af því tagi. Í mörgum tilvikum er til ákveðið markaðsverð eða gengi skammtaðra gæða.
Ef grannt væri skoðað, kæmi sjálfsagt í ljós, að dæmi séu um kaup og sölu á námslánum. Sumir námsmenn þurfa ekki öll lánin, sem þeim ber samkvæmt reglum. Þeir geta því selt þau og haft vextina í hagnað. Þetta væri svipað viðskiptum á öðrum sviðum skömmtunar.
Námslán eru ekki verri fyrir, að unnt er að nota þau á þennan hátt. Vaxtaleysi þeirra er herkostnaður þjóðfélagsins við að auka menntun okkar og jafna námsaðstöðu okkar. Allir, sem fullnægja ákveðnum, tiltölulega hlutlausum, skilyrðum, geta fengið slík lán.
Ríkið hefði lítið nema kostnað upp úr tilraunum til að meta einstök tilvik og reyna að þrengja hópinn, sem fær þessi forréttindalán. Hið sama er að segja um húsnæðislánin, sem eru annað gott dæmi um tiltölulega hlutlausa skömmtun á markaðshæfum forréttindum.
Um húsnæðislánin vitum við, að þau ganga kaupum og sölum. Íbúðir hækka í verði um 150300 þúsund krónur, ef á þeim hvílir húsnæðislán. Það er hagnaður þess, sem fær húsnæðislán og selur síðan strax íbúðina, er lánið fékkst út á. Það er söluverð forréttindanna.
Með því að kaupa húsnæðislán, beint eða óbeint, fá menn tvennt í senn, aðgang að eftirsóttu lánsfé og niðurgreiddum vöxtum. Fyrir þetta borga þeir hiklaust 150300 þúsund krónur eftir stærð íbúðar. Þetta er eðlileg afleiðing skömmtunar á ódýru og miklu lánsfé.
Flestir eru sammála um, að vaxtalaus námslán og húsnæðislán á niðurgreiddum vöxtum séu brýnir þættir nútímalegs velferðarþjóðfélags. Ennfremur, að hið sjálfvirka form á afgreiðslu þeirra sé skárra en misbrúkanlegt mat embættismanna á þörfum hvers og eins.
Almennt má segja, að munur á almennum vöxtum og vöxtum, sem sumir hafa aðgang að, en ekki aðrir, sé seljanleg vara. Þannig verður einnig um ódýru lánin, sem skömmtuð verða úr hinum nýja sjóði Stefáns Val geirssonar og ríkisstjórnar félagshyggjuflokkanna.
Sjóðurinn er gott dæmi um verstu mynd þess, er söluhæf forréttindi eru búin til á grundvelli skömmtunar. Í stað sjálfvirkninnar í veitingu námslána og húsnæðislána, sitja nokkrir aflóga stjórnmálamenn saman við borð og ákveða, hverjir komist gegnum nálaraugað.
Ríkisábyrgð er eitt algengasta formið á framleiðslu hagnaðar með forgangi að skömmtun. Hún er dálítið lúmsk og þess vegna vinsæl. Erlendis er talið, að ríkisábyrgð gefi þeim, sem hana fær, um 3% í gróða af vaxtamun. Þessi mismunur gengur þar kaupum og sölum.
Ríkisábyrgðir eru stundum kallaðar loftfimleikar með neti undir. Þær gera mönnum kleift að splundra verðmætum í margs konar ævintýramennsku, af því að Stóri bróðir borgar. Þær framleiða mistök, sukk og vaxtamun. Hið sama má segja um ábyrgðir ríkisbanka.
Kvóti, aflamark, búmark og fullvinnsluréttur eru enn annað dæmi um, að skömmtun er jafnan söluhæf markaðsvara. Þessa dagana nemur gengi á einu kílói af þorskkvóta 8 krónum. Allur þorskkvótinn hefur því skömmtunarverð upp á tæpa þrjá milljarða króna á ári.
Stjórnmál á Íslandi felast að umtalsverðu leyti í að útvega gæludýrum forgang að skömmtun. Þessa fyrirgreiðslu getur markaðurinn yfirleitt metið til fjár.
Jónas Kristjánsson
DV