Hversu hratt má flýja

Greinar

Tvisvar á dag var hringt úr Hvíta húsinu í stöðvar liðsins, sem bjargaði tveimur hvölum úr ís norðan við Alaska í vikunni. Bandaríkjaforseti sendi stærstu flugvélar og þyrlur hersins til aðstoðar við björgun tveggja táknrænna afkomenda þjóðhetjunnar Moby Dicks.

Að lokum leystist hugsjónamálið eins og í farsælum endi kvikmyndar. Sovézki flotinn kom á vettvang í líki tveggja ísbrjóta. Í sameinuðu átaki heimsveldanna tveggja, sem farin eru að semja um heimsfrið og vináttu, voru hvalirnir tveir frelsaðir úr ísprísundinni.

Almennar fréttir komust tæplega að í sjónvarpsstöðvum vestan hafs, meðan á þessu stóð. Rólegri menn skrifuðu yfirvegaðar greinar í blöð og vöruðu við hvalabrjálæði, en enginn tók mark á þeim. Hið góða hafði sigrað enn einu sinni og bandaríska þjóðin fagnaði innilega.

Erlend blöð, svo sem Newsweek, spá því, að hvalabjörgunin hafi virkjað djúpar tilfinningar í þjóðarsálinni og sameinað fólk til markviss átaks gegn hvalveiðum í heiminum. Í rammagreinum er svo Íslands sérstaklega getið, svo að menn viti, hvar óvininn sé að finna.

Hér í dálkum þessum hefur lengi verið varað við tilraunum til að mæta tilfinningamálum af þessu tagi með sveitum raunvísindamanna og löglærðra þrætubókarmanna. Áróðurs-varnarstríð hvalveiðiríkja á borð við Ísland var tapað, löngu áður en þessi vika hófst.

Að Halldór Ásgrímsson hvalaráðherra og menn hans geti þjarkað rökum og þrætubók um svokallaðar vísindaveiðar á hvölum upp á umheiminn er svona álíka fráleitt og að hægt sé að þjarka rökum auðlindaskatts og frjálsrar sölu á fiskveiðileyfum upp á Halldór.

Þegar Halldór er spurður um sölu veiðileyfa, verður hann svartur í framan og svarar af beinni tilfinningasemi, en lætur þrætubókina eiga sig. Hið sama gildir um útlendinga, þegar Halldór og menn hans birtast með skýrslurnar sínar. Þeir verða svartir í framan.

Grænfriðungar munu fá kvikmyndir um hringorma endursýndar í sjónvarpi, svo og tilraunir íslenzkra stjórnvalda til að smygla hvalkjöti um hafnir Hollendinga og Finna. Nokkrir hrundir lagmetissamningar eru aðeins upphafið að löngu og sársaukafullu stríði.

Fyrir nokkrum mánuðum var skrifað á þessum stað, að “hugsjónir vísindaveiða og þjóðrækni munu vafalaust verma hjörtu ráðherra og þjóðar, þegar fiskmarkaðir hafa hrunið og lítið annað verður að orna sér við”. Þessi hitagjafi hugsjóna fer nú senn að bila.

Löngu áður var hér í leiðara hvatt til, að áróðursfénu yrði varið til að fá útlendinga til að borða fisk. En þar stóð: “Sjávarútvegsráðherra og meirihluti þjóðarinnar eru sammála um, að meira máli skipti að láta útlendinga vita, að þeir geti ekki sagt okkur fyrir verkum.”

Halldór Ásgrímsson hefur sér til varnar að hafa samkvæmt skoðanakönnunum verið að framkvæma þjóðarvilja í hvalveiði- og vísindahugsjóninni. En hann hefur um leið sjálfur fengið pólitíska næringu af að magna upp þjóðrembu á gersamlega vonlausu og rándýru sviði.

Þjóðrembdir stjórnmálamenn geta haldið áfram að una við að harma tilfinningasemi og tvískinnung útlendinga og haldið áfram rökræða af þrætubók um, að ekki megi hlaupa of hratt á flóttanum í hvalveiðimálinu. Þeir breyta ekki því, sem ritað hefur verið á vegginn.

Heræfingar heimsveldanna í hvalabjörgun valda okkur vanda, en ráða ekki úrslitum í hvalastríðinu. Þau voru ráðin, áður en Halldór Ásgrímsson varð ráðherra.

Jónas Kristjánsson

DV