Slegizt í svínastíunni

Greinar

Hrakfarir okkar í hvalveiðimálum vegna djúpstæðrar hvalavináttu í Bandaríkjunum verða skiljanlegri, þegar við fylgjumst með forsetakosningunum þar í landi og sjáum, hve öflugan sess skipa margvíslegar tilfinningar, sem ekki verða studdar rökum eða staðreyndum.

Baráttan í bandarísku forsetakosningunum er óhugnanleg, ekki eingöngu vegna aðferðanna, sem beitt er, heldur einkum vegna þess, að þær bera mikinn árangur. Sérfræðingar í kjöri forseta leika sér með ómerkilegustu hvatir kjósenda eins og strengi í hljóðfæri.

Fyrrverandi forseti, Richard Nixon, sem kallar ekki allt ömmu sína í pólitísku undirferli og slagsmálum, hefur lýst hneykslun sinni á kosningabaráttunni. Hann segir hana hafa snúizt um lítilfjörleg mál, fjalli aðeins um yfirborðið og sé í mótsögn við dómgreind manna.

Stjórnendur kosningabaráttu Bush varaforseta hafa frá upphafi velt sér upp úr skítnum. Eiginkona Dukakis ríkisstjóra hefur verið sökuð um að hafa brennt bandaríska fánann og hann sjálfur sakaður um stuðning við geðsjúka glæpamenn og um skort á þjóðrembingi.

Það er ekki nema lítill hluti vandans, að sérfræðingar í innpökkun forsetaframbjóðenda velja sér vinnubrögð af þessu tagi. Miklu verra er, að lygin og rógurinn hafa svo mikil áhrif, að sérfræðingar andstæðingsins telja sig neydda til að hefja sama ómerkilega skítkastið.

Bush hefur lagt sérstaka áherzlu á að velta Dukakis upp úr því, að hann sé félagi í valinkunnum samtökum um borgaralegt frelsi. Þegar kjósendur fást til að forðast frambjóðanda á slíkum forsendum, má fullyrða, að lýðræði í Bandaríkjunum stendur á fallanda fæti.

Svo virðist sem nógu margir kjósendur í Bandaríkjunum séu reiðubúnir að trúa því, að samtök, sem eiga sér langa virðingar- og frægðarsögu, séu þjóðinni hættuleg, og að maður, sem hefur staðið sig sómasamlega sem ríkisstjóri, sé næstum því með horn og hala.

Með þessu er ekki verið að segja, að Dukakis mundi reynast betri forseti en Bush. Ástæða er til að hafa áhyggjur af ummælum Dukakis, sem benda til, að hann yrði haftasinnaður í viðskiptamálum og léti stuðnings menn Ísraelsríkis stjórna utanríkismálum of mikið.

Bandaríska þjóðin hefur í trúnni á skítkastið ekki sér til afsökunar að geta ekki vitað betur. Bandarísk dagblöð og aðrir fjölmiðlar hafa nákvæmlega skýrt frá staðreyndum, sem sýna, að rangt er farið með í skítkastinu. Þau hafa skoðað sérhvern áfellisdóm ofan í kjölinn.

Bandarísk dagblöð og aðrir fjölmiðlar hafa einnig nákvæmlega skýrt frá, hvernig ímyndarsérfræðingar taka forsetaframbjóðendur og vefja þeim inn í umbúðir, sem hæfa lægsta samnefnara bandarískra kjósenda. Þessar uppljóstranir hafa engin áhrif á gang mála.

Sagt er, að bandaríska kjósendur dreymi um forsetaframbjóðanda, sem segi þeim sannleikann, neiti að klæða sig í umbúðir frá ímyndarfræðingum, hlusti ekki á skoðanakannanir og þrýstihópa, en geti kallað fram hið bezta hjá þjóðinni til sameiginlegra dáða.

Í rauninni virðist ráðandi meirihluti bandarískra kjósenda vilja láta segja sér ævintýri og furðusögur og vilja forðast allt, sem gæti verið ekta undir umbúðunum. Með þessu hefur forsetaembættið verið smánað og Bandaríkin höfð að athlægi og spotti í umheiminum.

Ef hinir nýju ósiðir stjórnmála breiðast út frá Bandaríkjunum til annarra lýðræðisríkja, má fara að spá illa fyrir framtíð þess viðkvæma þjóðskipulags í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV