Skattlagt en ekki skorið

Greinar

Fjárlagafrumvarpið einkennist ekki af sköttum og skurði, eins og gjarna er haldið fram í umræðunni um þau, heldur af sköttum og óskhyggju. Niðurskurður opinberra útgjalda er lítill í frumvarpinu, svo sem við mátti búast af fólki, sem lítið skyn ber á peninga.

Ríkisstjórnir hafa þau þægindi umfram stjórnendur fyrirtækja og heimila að geta náð jafnvægi gjalda og tekna með því að auka skattheimtu. Aðrir aðilar verða að haga útgjöldum í samræmi við tekjur og skera niður útgjaldaóskir í samræmi við þann raunveruleika.

Þessi ríkisstjórn er lík þeim, sem lögðust upp á þjóðina á undan henni. Hún hefur lítið beitt niðurskurði, hinni venjulegu aðferð heimila og fyrirtækja, við að ná jöfnuði í sínum rekstraráformum. Þeim mun ótæpilegar notar hún forréttindi sín sem skattheimtumanns.

Með fjárlagafrumvarpinu ætlar ríkisstjórnin að koma hlutfalli skatttekna af landsframleiðslu upp í tæplega 27%. Það er aukning um hálft annað stig frá þessu ári og tæplega fjögurra stiga aukning frá í fyrra, þegar hlut deild skatttekna var um 23% af landsframleiðslu.

Þetta er miklu alvarlegri breyting en menn vilja vera láta. Eðlilegt er, að tekjur ríkisins séu í tiltölulega föstu samhengi við tekjur þjóðarinnar. Veruleg og varanleg röskun á því hlutfalli mun valda slæmum hnekki á lífskjörum heimila og rekstrarkjörum fyrirtækja.

Við þurfum sízt á slíku að halda núna, þegar laun hafa verið fryst, þegar fyrirtæki fara unnvörpum á hausinn eða draga saman seglin og þegar atvinna fer ört minnkandi. Við slíkar aðstæður á ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi, en ekki sýna ótímabæra græðgi.

Öðru máli gegndi, ef allt væri í lukkunar velstandi úti í þjóðfélaginu. Ef horfur væru á batnandi fjárhag heimila og fyrirtækja og á rífandi þenslu í atvinnulífinu, væri afsakanlegt, að ríkið tæki til sín aukinn hluta um tíma. En allt stefnir því miður í hina áttina.

Ekki er heldur víst, að upp gangi allar ráðagerðir fjárlagafrumvarpsins um aukna skatta. Ráðherrum okkar er ókunnugt um hagfræðireglu, sem segir, að grunnur ofnýtts skattstofns hafi tilhneigingu til að minnka, svo að tekjurnar aukast ekki, heldur minnka jafnvel.

Hækkun á vörugjaldi, benzíngjaldi og innflutningsgjaldi bifreiða mun ekki skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs. Hún mun hins vegar skila sér í minni innflutningi, sem er gott og gagnlegt út af fyrir sig, en kemur ekki ríkissjóði sem slíkum að neinum notum.

Ennfremur er ekki sjáanlegt, að samkomulag sé milli stjórnarflokkanna um alla hina nýju skattheimtu. Ef ekkert verður til dæmis af fyrirhuguðum skatti á happdrætti, er líklegt, að ríkisstjórnin verði að finna aðra skattheimtu í staðinn, úr því að hún vill ekki spara.

Óskhyggja fjárlagafrumvarpsins kemur fram í ýmsum myndum. Gert er ráð fyrir, að svokölluð vinnuaflsnotkun ríkisins dragist saman um 2,5% á næsta ári. Gamalkunnar eru slíkar hugmyndir um niðurskurð yfirvinnu og um brottvísun lausráðins starfsfólks.

Fullyrðingar málsvara ríkisstjórnarinnar um niðurskurðarstefnu fjárlagafrumvarpsins fá ekki staðizt, enda er þegar ljóst, að frumvarpið felur í sér umtalsverða og skaðlega aukningu á hlut ríkisbúsins í þjóðarbúinu. Raunveruleikinn á svo eftir að verða enn verri.

Jafnvægi kemst ekki á þjóðarhag fyrr en ríkisstjórnir fara að reka ríkisbúið sparlega, alveg eins og skynsamt fólk rekur heimili og fyrirtæki í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV