Úrslit bandarísku forsetakosninganna eru alvarlegt áfall lýðræðinu þar í landi, af því að þjóðin lét samvizkulausa ímyndarfræðinga hafa sig að meira fífli en áður hefur þekkzt. Um leið eru þau áminning til allra lýðræðisþjóða um að láta ekki leika sig á sama hátt.
Sem fjölmiðlaráðgjafi George Bush var Roger Ailes einn lykilmanna að sigri hans. Við munum eftir honum frá sigri Nixons fyrir tuttugu árum, þegar hann framleiddi kosningaauglýsingar forsetaefnisins. Þá var verk hans talið hafa ráðið úrslitum í tvísýnni baráttu.
Fyrir tuttugu árum fólst vinna ímyndarfræðingsins í að pakka erfiðu forsetaefni inn í glansandi umbúðir, sem bandaríska þjóðin keypti, með afleiðingum, er þá voru ófyrirséðar. Nú felst starfið í grófari brögðum, einkum í rógi um andstæðinginn. En með sama árangri.
Auðvitað er hægt að saka hinn nýkjörna forseta um að hafa valið siðleysingja sér til halds og trausts í kosningabaráttunni. En fyrst og fremst er brýnt að benda á sekt bandarísku þjóðarinnar, sem er orðin svo rugluð í ríminu, að hún sér ekki það, sem allir geta séð.
Öll kosningabarátta Bush byggðist á að reyna að leika á kjósendur. Sumt af því var ekki nýtt af nálinni. Á Íslandi könnumst við til dæmis við kosningaloforð, sem vita má, að ekki verða efnd. Skítkast höfum við líka séð, en ekkert, sem minnir á bandaríska ósómann.
Svo virðist sem þjóðarsátt sé í Bandaríkjunum um, að þolanlegt sé, að kosningabarátta sé háð á forsendum ímyndarfræðinga á borð við áðurnefndan Roger Ailes, svo og kosningastjórana James Baker og Lee Atwater. Hæfni þeirra var jafnvel hrósað í fjölmiðlum.
Ekkert er nú því til fyrirstöðu, að ímyndarfræðingar færi sig upp á skaftið, þegar þeir hafa fengið staðfestingu þess í niðurstöðu bandarísku kosningabaráttunnar, að umgangast megi heila þjóð af fullkominni fyrirlitningu. Hvað ætli Roger Ailes finni næst upp?
Svo virðist sem staðreyndir, sem ítrekaðar hafa verið á prenti í Bandaríkjunum, hafi engin áhrif á þjóðarmeirihluta, sem trúir á sjónvarpsskjáinn og ímyndirnar, sem koma fram í leikhúsi hans. Meirihlutinn hefur látið hinn borgaralega frumburðarrétt í trölla hendur.
Unnt er að ímynda sér, að íslenzkir ímyndarfræðingar muni vilja læra af hinni bandarísku reynslu. Munu þeir sýna sjónvarpsmyndir, þar sem nafn og persóna andstæðingsins er tengd andliti og nafni landsþekkts nauðgara? Hvernig mundu kjósendur taka slíku?
Ekki dugir að ganga út og æla, þótt við höfum orðið vitni að því, að bandaríska þjóðin hefur dregið sjálfa sig niður í svaðið með því að hegna ekki hinum samvizkulausu ímyndarfræðingum og frambjóðanda þeirra. Skynsamlegra er að meta, hvernig bregðast skuli við.
Við verðum að gera okkur grein fyrir hættunni á, að innreið sjónvarpsins breyti taflborði lýðræðisins. Allt of margt fólk virðist hafa tilhneigingu til að ímynda sér, að hreyfanlegar myndir á skjá sýni meiri raunveruleika en áður mátti lesa í táknum á pappír.
Hér á landi hefur fréttaleikhúsið í sjónvarpinu náð því stigi, að ríkisstjórn hefur verið slitið í beinni útsendingu. Í vaxandi mæli sjást gamalkunnir rauparar og kjaftaskar æfa sig á innantómum blekkingum, sem vísa til sömu áttar og við höfum séð í Bandaríkjunum.
Ef hinar nýju leikreglur bandarísku kosningabaráttunnar breiðast út á Vesturlöndum, er öruggt, að lýðræði mun líða undir lok sem þjóðskipulag.
Jónas Kristjánsson
DV