Fólk lætur plata sig

Greinar

Vikulega berast fréttir um, að halli ríkisins á þessu ári verði meiri en áður var gert ráð fyrir. Á þremur mánuðum hefur hallaspáin hækkað úr 0,7 milljörðum í 5 milljarða. Þetta bendir til, að ríkið láti reka á reiðanum sem fyrirtæki og yrði gjaldþrota, ef slíkt væri hægt.

Þótt íslenzkir stjórnmálamenn og aðrir félagsmálaberserkir, svo og æðstu embættismenn, geti ekki rekið fyrirtæki, er þeim margt til lista lagt. Þeim er mörgum vel gefið að þyrla upp ryki og leggja á þokur blekkinga á víxl. Um slíkt höfum við mörg nýleg dæmi.

Sjávarútvegsráðherra dró frá stíflu gegn flutningi ísfisks til erlendra hafna. Við það skall á flóð landana og verðið lækkaði. Slíkt gerist alltaf, þegar stíflur eru teknar. Uppsafnaður vandi þarf fyrst að leita útrásar, áður en ástandið fellur í hefðbundinn markaðsfarveg.

Stíflan var ekki tekin til að kanna, hvort unnt sé að endurnýja frelsi í útflutningi á ísfiski. Hún var tekin til að geta sagt, að frelsi sé skaðlegt og að skipulag eigi áfram að vera í höndum ráðherra og ráðuneytis. Hún var tekin til að geta byggt stærri stíflu í næstu viku.

Dæmi úr ólíkri átt er útskýring utanríkisráðherra á afstöðu hans gegn Palestínumönnum, er hann breytti atkvæði Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði, að ályktun þingsins væri öðruvísi orðuð en árið áður og full af skítkasti í garð Ísraels.

Athugun hefur hins vegar leitt í ljós, að efnislega er þessi ályktun svipuð þeim, sem áður hafa verið samþykktar á þessum vettvangi, en tekur líka tillit til hryðjuverkanna, sem Ísraelsher hóf fyrir ári á hernumdu svæðunum. Og alls ekkert skítkast er í henni.

Víðar hafa menn uppi villuljós en í ráðuneytunum. Neytendasamtökin segjast bera hag neytenda fyrir brjósti, en vinna gegn hagsmunum þeirra í mikilvægum málum. Dæmi um það er andstaða samtakanna gegn strikamerkingum og innflutningi landbúnaðarafurða.

Samtökin andæfa gegn strikamerkingum með því að segja, að ekki sé nóg að verðmerkja í hillum, heldur verði einnig að halda áfram verðmerkingu vörunnar sjálfrar. Sú merking er dýr í verðbólguþjóðfélagi og endurspeglast að sjálfsögðu í verði vörunnar.

Miklu skiptir fyrir neytendur, sem kaupa mikinn fjölda af vörum í einu, að ræman, sem þeir fá við peningakassann, telji upp vörurnar, er þeir hafa keypt. Að öðrum kosti hafa þeir ekki hugmynd um, hvort summan er rétt eða ekki. Úr þessu bæta strikamerkingar.

Enn mikilvægara fyrir neytendur er, að leyfður verði innflutningur búvöru í samkeppni við búvöruna, sem framleidd er í landinu. Það mundi halda niðri verði til neytenda og raunar stórlækka það. Þessu hafa Neytendasamtökin verið andvíg og er það svívirðilegt.

Í Alþýðusambandinu eru á þingum höfð uppi fögur orð um, að bæta þurfi kjör hinna verst settu og að fá þurfi þar nýtt fólk, ekki sízt konur, inn í forustuliðið til að ná þeim árangri. Við höfum nýlega orðið vitni að skrautlegri blekkingarsýningu af því tagi.

Eftir hana hafa stjórnmálaflokkarnir sem eins konar hluthafar haldið áfram að skipta með sér Alþýðusambandinu eins og Neytendasamtökunum. Og brátt kemur í ljós, að í ASÍ munu hátekjuhópar halda áfram að beita lágtekjufólki fyrir vagn aukinnar misskiptingar tekna.

Ríkið, Neytendasamtökin og Alþýðusambandið eru bara örfá dæmi um, að víða er ekki allt sem sýnist, ef skyggnzt er undir þokuna. Fólk lætur almennt plata sig.

Jónas Kristjánsson

DV