Gegnsætt bókhald

Greinar

Oft finnst mönnum kyndugt og að minnsta kosti flókið, þegar ríkið er að taka fé úr einum vasa sínum til að láta í annan. Slíku var til dæmis haldið fram á vegum Morgunblaðsins um helgina í niðurlagi fréttar um samdrátt í kindakjötssölu eftir innreið söluskattsins.

Skiljanlegt er, að sumum finnist skrítið, að ríkið skuli í senn taka söluskatt af kindakjöti og greiða kjötið jafnóðum niður um mun hærri upphæð. Víða í kerfinu er líka reynt að forðast gagnverknað af slíku tagi. Til dæmis selur ríkið sjálfu sér áfengi á kostnaðarverði.

Dæmi um þetta eru mörg. Ýmis þjónusta ríkisins, svo sem lyf og læknisþjónusta, er veitt beint, án þess að viðskiptavinurinn þurfi fyrst að borga hana og fái hana síðan endurgreidda. Þá lætur ríkið ýmsa sjóði á sínum vegum greiða niður vexti fyrir viðskiptavinina.

Ýmis rök mæla samt með, að oftar en ekki beri að millifæra á slíkan hátt á vegum ríkisins. Bókhaldslega séð eru færslurnar ekki til mikillar fyrirhafnar, því að öll þrælavinna þeirra vegna fer nú fram í tölvum, sem ekki kvarta mikið, þótt álagið á þær aukist.

Flestir telja hagkvæmt að hafa skatta sem flatasta, það er að segja að leggja sömu prósentu, eða að minnsta kosti sem fæstar mismunandi prósentur, ofan á hvern skattstofn. Þetta er talið einfalda skattakerfið og auka líkur á, að skattstofni sé ekki haldið leyndum.

Til þess að koma sjónarmiðum félagslegs réttlætis inn í skattakerfi ríkisins er svo ýmsum skattgreiðendum skilað peningum til baka, til dæmis í formi barnabóta. Þeir peningar fara út og inn úr hinu opinbera kerfi, en er samt haldið bókhaldslega út af fyrir sig.

Færa má rök að því, að millifærslur af þessu tagi mættu vera mun meiri en þær eru núna. Til dæmis gæti verið gagnlegt, að ráðuneyti og aðrir forgangsaðilar hins opinbera yrðu að kaupa áfengi á fullu verði í Ríkinu, þótt þar með væri ríkið að borga sjálfu sér.

Ef fullt áfengisverð kæmi fram í bókhaldi og fjárreiðum einstakra ráðuneyta, er líklegt, að ráðamenn þeirra gætu áttað sig betur á umfangi þeirra áfengiskaupa í heildarsamhengi áfengiskaupa landsmanna og reyndu að hafa þau hóflegri en hingað til hefur tíðkazt.

Oft hefur verið lagt til, að þjónusta ríkisins á ýmsum sviðum, svo sem á sjúkrahúsum, væri bókfærð út og inn á eins konar reikningum, sem færu um hendur starfsliðs og sjúklinga, svo að allir, sem málið varðar, geti séð, hversu mikils virði þjónustan er í rauninni.

Sjaldnar hefur verið minnzt á aðra mikilvæga millifærslu, sem gjarnan mætti koma fram í bókhaldi. Í stað þess að niðurgreiða vexti ýmissa opinberra sjóða, svo sem Byggingarsjóðs ríkisins, Byggðasjóðs og Lánasjóðs námsmanna, væri heppilegt að styrkja lánþega beint.

Slíkt yki skilning í þjóðfélaginu á því meginhlutverki vaxta að kalla á sparifé. Um leið drægi það úr líkum á, að menn séu að fela fyrir sjálfum sér og öðrum hinn félagslega, menningarlega og annan kostnað við hlutverkið, sem þessum sjóðum er falið að gegna.

Á svipaðan hátt er eðlilegt, að skattar hins opinbera leggist á kindakjöt eins og aðra vöru, jafnvel þótt ríkið missi peningana til baka í niðurgreiðslur og ýmsa styrki vegna fáránlegs búvörusamnings, sem stuðlar að óhóflegu sauðfjárhaldi í landinu og ofbeit á afréttum.

Þannig er oft heppilegt og jafnvel brýnt, að ríkið taki fé úr einum vasa sínum til að láta í annan vasa sinn, svo að heildarbókhaldið sé gegnsætt og heilbrigt.

Jónas Kristjánsson

DV