Allt snýst um mennina

Greinar

Fátt getur komið í veg fyrir, að afgangur Borgaraflokksins taki þátt í ríkisstjórninni, þegar búið verður að finna tvö ráðherraembætti handa honum upp úr áramótum. Svo vel vill til, að tvö sæti voru geymd í haust, þegar ráðherrar urðu níu í stað ellefu áður.

Engir núverandi ráðherrar þurfa að gefa eftir starf sitt, þótt tveir ráðherrar Borgaraflokksins bætist við fríða sveit. Engin persónuleg sárindi munu því koma í veg fyrir, að ríkisstjórnin bæti með þessum hætti stöðu sína á Alþingi upp í eðlilegt meirihlutafylgi.

Snjallir stjórnmálarefir voru þeir, er skipulögðu þessa framvindu strax í haust, þegar ríkisstjórnin var mynduð á grundvelli huldumanna, sem þá var ekki greinilega vitað, hverjir voru. Djúphugsuð leikflétta Steingríms og félaga er nú í þann mund að ganga endanlega upp.

Aðeins tveimur og hálfum sólarhring eftir að Albert Guðmundsson hafði bitið á Parísaragnið, var afgangurinn af Borgarflokknum búinn að ákveða að reyna að komast í ríkisstjórnina. Miklu máli skiptir fyrir þingmenn flokksins, að sú verði niðurstaðan eftir áramót.

Skoðanakannanir hafa í síbylju sýnt lítið fylgi Borgaraflokksins. Brotthvarf Alberts eyðir villtustu ósk hyggju flokksmanna um framhaldslíf á þingi. Oddamenn flokksins töldu sig þess vegna fyrst og fremst þurfa að koma í veg fyrir, að kosningar yrðu fljótlega.

Þingmenn flokksins verða að leita sér að nýrri atvinnu á næstu mánuðum, ef kosið verður í febrúar eða marz. Með þátttöku í ríkisstjórn geta þeir, fræðilega séð, framlengt atvinnu sína um það hálft þriðja ár, sem lifir af kjörtímabilinu. Og þeim finnst gaman að vera á þingi.

Þar á ofan eiga þeir Júlíus Sólnes og Óli Guðbjartsson kost á því að verða ráðherrar þetta hálfa þriðja ár. Það má telja virðulegan, vel borgaðan og valdamikinn endi á snöggum stjórnmálaferli. Þeir hafa allt að vinna og engu að tapa, sem ekki var hvort sem er tapað.

Þetta má líta á sem skammtímahagnað ráðamanna Borgaraflokksins. Hinn gersamlega fylgislausi flokkur getur einfaldlega setið við kjötkatla ofstjórnarkerfis íslenzkra stjórnmála í hálft þriðja ár. Svo lýkur ævintýri flokksins, en það verður ljúft, meðan það endist.

Þar að auki er hugsanlegt, að einstakir ráðamenn flokksins eigi sér lengri framtíð í stjórnmálum. Til dæmis getur komið til mála, að Alþýðuflokknum henti að fá Óla Guðbjartsson sem þingmannsefni á Suðurlandi, ef fréttastjóri Stöðvar tvö kærir sig ekki um hnossið.

Hagsmunir oddamanna stjórnarflokkanna eru svipaðir, þótt þeir séu ekki eins brýnir. Þeirra flokkar munu halda áfram að lifa eftir kosningar, af því að þjóðin hefur ríka þörf fyrir sjálfspyndingar. En völd andartaksins eru fíkniefni, sem ráðherrar ánetjast fljótt.

Steingrímur Hermannsson getur, í stíl föður síns, ekki hugsað sér að vera ómerkari ráðherra en forsætisráðherra. Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson eru ekki eins kröfuharðir og líður einfaldlega betur sem ráðherrum en sem valdaminni þingmönnum.

Þannig hafa þeir, sem máli skipta, nokkurn hag af framvindu íslenzkra stjórnmála á síðustu og næstu vikum. Hitt er svo hliðaratriði, að þjóðin mun í leiðinni áfram búa við ráðherra, sem hafa afar mikinn áhuga á að draga völd og fé frá þjóðinni til stjórnvalda.

Atburðir jólaföstunnar eru sönnunargagn þess, að enn gildir hið gamalkunna, að stjórnmál snúast ekki um málefni, heldur um menn, völd þeirra og peninga.

Jónas Kristjánsson

DV