Seinþvegnar eru syndirnar

Greinar

Syndir margra fyrri ára koma um þessar mundir niður á Þjóðhagsstofnun. Þær valda útbreiddri ótrú á spá hennar fyrir þetta ár. Ríkisstarfsmannadeild Bandalags háskólamanna hefur sérstaklega tekið fram, að í næstu kjaraviðræðum verði ekki tekið mark á þeim.

Við þessu mátti búast fyrr eða síðar. Einhvern tíma hlaut að koma að formlegum yfirlýsingum deiluaðila á vinnumarkaði um, að tölur Þjóðhagsstofnunar yrðu ekki hafðar til hliðsjónar, heldur mundi hver fyrir sig nota eigin tölur eða hverjar þær, sem henta hverju sinni.

Raunar gerist þetta ekki vonum fyrr. Lengi hefur verið bent á óeðlilega mikinn og varanlegan mun á spá tölum Þjóðhagsstofnunar og raunveruleikanum, eins og hann síðar kom í ljós. Bent hefur verið á, að spár stofnunarinnar hafa oft verið lakari en spár annarra.

Segja má, að ósanngjarnt sé að saka Þjóðhagsstofnun líðandi stundar um syndir fyrri ára. Upp á síðkastið hefur stofnunin sýnt vaxandi tregðu á að þjóna hagsmunum stjórnvalda. Í sumar varð til dæmis uppistand í fyrri ríkisstjórn út af óþægilegum tölum hennar.

Fjármálaráðuneytið taldi á sig hallað í miðsumarspá stofnunarinnar. Það leiddi til opinberrar umræðu forsætisráðherra og fjármálaráðherra um innihald spár, sem þáverandi forstjóri stofnunarinnar sagði, að ekki væri til. Fjármálaráðherra tókst ekki að breyta spánni.

Þetta atvik sýndi tvennt. Annað var illt og hitt gott. Í fyrsta lagi töldu frekir ráðherrar sér heimilt að krukka í spár Þjóðhagsstofnunar til að gera þær sér hagstæðari. Í síðara lagi tókst stofnuninni í þetta ákveðna skipti að verja tölur sínar gegn ágangi ráðuneytismanna.

Hitt er svo ljóst, að erfitt er fyrir ríkisstjórnina að nota tölur Þjóðhagsstofnunar gegn hagsmunaaðilum úti í bæ, fyrr en einhver reynsla er komin á, að unnt sé að taka mark á tölunum. Það getur tekið svo sem tvö ár, frá því að nothæfar tölur eru farnar að sjást.

Þjóðhagsstofnun er deild í forsætisráðuneytinu. Hún er þess vegna í erfiðri aðstöðu, þegar hagsmunir forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans eru annars vegar. Til dæmis krefjast hagsmunirnir þess yfirleitt, að tölur sýni, að ekki sé grundvöllur fyrir miklar kauphækkanir.

Um langt árabil var stofnunin misnotuð af ráðamönnum. Sú fortíð verður ekki þurrkuð út í einu vetfangi, þótt marktækar spár og aðrar tölur byrji að koma frá henni, sem alls ekki hefur verið sannað enn. Þess vegna er eðlilegt, að stéttarfélag lýsi frati á hana.

Sem betur fer er óhjákvæmilegt, að Þjóðhagsstofnun láti af óeðlilegri fylgispekt fyrri ára við hagsmuni ríkisstjórna. Úti í bæ eru ótal aðilar farnir að keppa við stofnunina. Þeir gefa út spár, sem margar hverjar eru hreinar þjóðhagsspár á verksviði Þjóðhagsstofnunar.

Samkeppni í spámennsku er til góðs. Spárnar eru bornar saman, ræddar og síðan skoðaðar í ljósi reynslunnar. Ef í ljós kemur, að meira mark er takandi á spám aðila á borð við Verzlunarráð, Félag íslenzkra iðnrekenda eða Alþýðusamband Íslands, verða þær notaðar.

Hagspár og aðrar hagtölur eru brýnar undirstöður stjórnmálaumræðunnar í landinu. Fyrirsjáanleg þróun slíkra talna verður þess vegna til góðs fyrir þjóðina. Þróunin hjálpar henni við að greina veruleikann gegnum þokuna, sem stjórnmálamenn aðhyllast gjarna.

Enn um sinn verður Þjóðhagsstofnun að sætta sig við, að fólk taki tölum hennar varlega. Aukið gengi hennar er háð dómi reynslunnar á tölum hennar.

Jónas Kristjánsson

DV