Böl bætt með meira böli

Greinar

Í heimi miðstýringar er gamalt skipulagsklúður leyst með nýju og auknu skipulagsklúðri, þegar hinu fyrra klúðri er ekki lengur vært. Þannig hefur sjávarútvegsráðherra lagt til breytt skipulag á kvótakerfinu, sem hann hefur verið að herða um háls sjávarútvegsins.

Andstaða samtaka útvegsmanna við nýju tillögurnar byggist því miður ekki á þessu. Hún stafar nær eingöngu af, að ráðherra hyggst ekki lengur gefa útvegsmönnum hinn árlega veiðikvóta, heldur taka 2% hans í sérstakan sjóð hins opinbera og selja þann hluta.

Útvegsmenn segja þetta vera upphaf að hinum versta auðlindaskatti og má það til sanns vegar færa. Hins vegar er þessi upptaka á hluta árlegrar gjafar þjóðfélagsins til útvegsmanna ekki í þeim stíl, sem fræðimenn hafa lagt til, heldur með sérstöku Framsóknarsniði.

Verði á kvóta ríkisins er ætlað að taka mið af markaðsverði á hverjum tíma. Það verður erfitt í framkvæmd, því að helmingnum af kvóta sjóðsins er ætlað að tryggja fiskvinnslu á landsvæðum, sem hafa ótryggan aðgang að hráefni eða búa við lélegt atvinnuástand.

Til að efla þennan nýja sjóð til aukinnar miðstýringar og aukinnar skömmtunar hyggst sjávarútvegsráð herra gera upptækar 330 milljónir, sem eru í Úreldingarsjóði fiskiskipa og Aldurslagasjóði fiskiskipa. Lögfræðilega séð er ótrúlegt, að ríkið megi stela þessu fé.

Athyglisvert er, að sjávarútvegsráðherra hefur viðurkennt með tillögunum, að hann og forveri hans, sem nú er forsætisráðherra, hafa haldið áfram þeirri stefnu Lúðvíks Jósepssonar að byggja upp of stóran sjávarútveg og að halda úti of miklum tilkostnaði við hann.

Nú á að viðurkenna þetta, fækka fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum annars vegar og sjómönnum og fiskvinnslufólki hins vegar. Þetta á samkvæmt tillögunum samt ekki að koma niður á stöðunum, sem liggja verst við sjósókn og hafa ótryggt framboð á atvinnu.

Sennilega er nauðsynlegt, að rekstrareiningum í sjávarútvegi fækki að minnsta kosti að marki tillagna sjávarútvegsráðherra og að starfsliði atvinnugreinarinnar fækki því um ein 500 á sjó og önnur 500 á landi. Slíkt ætti að geta aukið hagkvæmni og samkeppnisfærni.

En fækkun þessi er gagnslítil, ef hún verður ekki einmitt þar, sem aðstaða er verst. Ef fækkunin á fyrst og fremst að koma niður á öflugum sjósóknarplássum, til að vernda hin, sem ramba á heljarþröm, leiðir fækkunin ekki til árangursins, sem sótzt er eftir.

Framsóknarflokkur nútímans er eðlilegt framhald af stefnu landeigendavaldsins á einokunartímanum, þegar farið var að mjólka sjávarútveginn í þágu landbúnaðar. Þetta framhald náði hámarki á kreppuárunum, sem flokknum tókst að framlengja í tæpan áratug.

Framsóknarflokkurinn stefnir enn að miðstýringu þjóðfélagsins og fjármagns þess, svo að sjávarsíðan megi halda uppi dalabyggðum. Í þessu skyni hefur flokknum tekizt að telja sjávarsíðufólki trú um, að óvinur hennar sé þéttbýlið á Reykjavíkursvæðinu.

Sú sjónhverfing hefur þvingað hina stjórnmálaflokkana til að fylgja í reynd stefnu Framsóknar. Þannig hefur sjávarsíðunni verið neitað um frjálsar veiðar og frjálst gengi krónunnar og íbúum hennar í staðinn kennt að nota ruðurnar af skömmtunarborði byggðastefnu.

Markmið þessa leiks er, að miðstýringarmenn geti ráðskazt með líf fólks og fyrirtækja, – að sem flestir verði að kyssa tær stjórnmálamanna og kommissara.

Jónas Kristjánsson

DV