Viðreisnarþol er lítið

Greinar

Hætt er við, að senn blási svalir vindar um Mikhail Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna. Vinsældir hans á Vesturlöndum duga honum skammt heima fyrir, ef honum verður kennt um óþægindin, sem fylgja tilraunum hans til þjóðfélagsopnunar og efnahagsviðreisnar.

Margir forustumenn í Sovétríkjunum fylgja honum aðeins með hálfum huga að málum. Þeir gera sér grein fyrir, að þjóðfélagið var komið í blindgötu. Þeir vilja prófa endurbætur Gorbatsjovs, en eru samt álíka hræddir við þær og Íslendingar eru við raunvexti.

Þolinmæði þessara hálfvolgu stuðningsmanna eru takmörk sett. Við þekkjum slíkt vel hér á Íslandi. Okkar stjórnvöld gerðu í haust tilraun til frelsis í útflutningi á ferskum fiski. Það olli óhóflegum útflutningi, þegar flóðgáttin opnaðist, svo sem við mátti búast.

Í stað þess að bíða og sjá, hver atburðarásin mundi verða á löngum tíma, fengu hin miðstjórnarlega sinnuðu stjórnvöld okkar hland fyrir hjartað strax í fyrstu vikunni. Eftir viku tilraun til efnahagslegrar opnunar á þessu afmarkaða sviði var frelsið dregið til baka.

Hin almenna regla er, að viðreisn efnahags með opnun hagkerfis hefur alltaf þjáningar í för með sér og að þær koma fyrr fram en hagurinn. Þetta höfum við séð greinilega hér á landi í fálmkenndri leit fyrri stjórnvalda okkar í leit að sparifjármyndandi raunvöxtum.

Í augun skera þjáningar fyrirtækja vegna aukins fjármagnskostnaðar. Minni athygli vekur, að sparnaður í landinu fór að aukast og nálgast það, sem þekkist í öðrum löndum. Niðurstaða núverandi ríkisstjórnar er ótímabært hvarf frá brýnni raunvaxtastefnu.

Þegar íslenzk stjórnvöld hafa eins lítið þol til góðra verka og dæmin hér að ofan sýna, er ekki unnt að búast við, að stjórnvöld í Sovétríkjunum hafi margfalt meiri seiglu. Þar voru líka margir orðnir meira eða minna samgrónir gömlu hafta- og kreppustefnunni.

Hætt er við, að hugur sovézkra ráðamanna hneigist til endurnýjaðrar miðstýringar, alveg eins og íslenzkum ráðamönnum dettur strax í hug aukin miðstýring, þegar eitthvað bjátar á. Hin sovézka Eysteinska í efnahagsog fjármálum er grunnmúruð í sjö áratuga hefð.

Viðreisnarstefnan í Sovétríkjunum hefur, eins og við mátti búast, fyrst leitt til verðbólgu, sem áður þekktist lítt eða ekki þar í landi. Hún hefur leitt til krafna um launahækkanir, sem lítið var um áður. Afnám niðurgreiðslna og uppbóta mun gera þetta tilfinnanlegra.

Krafa Gorbatsjovs og manna hans um vel rekin fyrirtæki stríðir gegn sameiginlegum hagsmunum værukærra forstjóra og værukærra starfsmanna, sem sjá gjaldþrot og uppsagnir á næsta leiti. Þegar hafa rúmlega 40.000 störf verið lögð niður í verkalýðsfélögum.

Þar á ofan er viðreisnarstefnan í Sovétríkjunum svo fálmkennd, að ekki er unnt að búast við bættum lífskjörum hennar vegna á næstu árum. Þess vegna er hugsanlegt, að hálfvolgir stuðningsmenn stefnunnar missi móðinn og flýi í faðm harðra andstæðinga hennar.

Þetta er ekkert ólíkt því, sem er að gerast hér á landi, er daufir stuðningsmenn opins hagkerfis, svo sem fyrrverandi þjóðhagsstjóri, leita í hlýjuna hjá kreppu- og haftasinnum og gerast ráðherrar í ríkisstjórn Framsóknar, sem telur, að miðstýra beri öllum vandamálum.

Ekki er heldur ótrúlegt, að Gorbatsjov gefi sjálfur eftir fyrir afturhaldinu, þegar hann sér stuðningsliðið leysast upp og hverfa, af því að þolinmæðina skortir.

Jónas Kristjánsson

DV