Leiksýningin fellur

Greinar

Ríkisstjórnin er byrjuð að uppskera laun syndarinnar. Í skoðanakönnun DV í gær kom í ljós, að hún er komin í minnihluta meðal kjósenda, með 45% fylgi á móti 55%. Enn neðar er komið fylgi stjórnarflokkanna hvers fyrir sig. Samanlagt er það núna ekki nema 40%.

Þetta bendir til, að lokið sé hveitibrauðsdögum verstu ríkisstjórnar síðustu áratuga og að kjósendur séu að byrja að átta sig á staðreyndum. Vonandi verður fylgi stjórnarinnar fljótt komið niður í þau 40%, sem næstsíðasta stjórn hafði í sumar, rétt áður en hún sprakk.

Ánægjulegt er, að svarendur í skoðanakönnuninni skuli refsa Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum fyrir að leiða fremsta valdshyggjumann þjóðarinnar til fjármálastjórnar, þar sem hann getur svalað sér með tíðum upphrópunum hótana um fjárhagslegt ofbeldi.

Eitt fyrsta verk hins valdasjúka fjármálaráðherra var að hóta eigin flokkssystkinum í stjórn flokksmálgagnsins, að hann skyldi taka ríkisstyrkinn af blaðinu og skrúfa fyrir auglýsingar ríkisins í því, ef vilji margfalds meirihluta í blaðstjórninni fengi að ráða ferðinni.

Mátulegt er á Alþýðubandalagið að hafa slíkan oddamann, sem vikulega er með hótanir gagnvart andmælendum sínum um að hefna þess í héraði, sem hallaðist á alþingi. Það hæfir flokknum vel að láta stjórnast af ýktri útgáfu af afleiðingum óhóflegrar valdshyggju.

Greinilegt er, að stjórnsýsla er ekki helzta viðfangsefni höfuðsmanna ríkisstjórnarinnar. Þeir eru allir þrír fyrst og fremst á leiksviði og meta árangur sinn eftir því. Fundaherferðin hans Ámunda er eðlilegur þáttur í leikaraskapnum, þótt skemmtanaskattur greiðist ekki.

Öll framganga og fjölmiðladans þeirra tveggja þjóðarleiðtoga, sem nú ferðast um landið á rauðu ljósi, framkallar hugrenningar um, að þeir hljóti að hafa staðnað í málfundaskóla hjá JC eða í málfundafélagi gagnfræðaskóla, þar sem óheftur leikaraskapur ræður ferð.

Formaður Framsóknarflokksins er miklu nærfærnari í að spila á almenningsálitið, þótt ekki hafi það dugað flokki hans og stjórn í þessari skoðanakönnun. Hans vandi er fyrst og fremst fólginn í, að fólk er að byrja að skilja, að hann er úti að aka í efnahagsmálum.

Ekki kemur á óvart, að Borgaraflokkurinn er heillum horfinn í skoðanakönnuninni. Hann hafði lítil spil og hefur ekki fengið á þau neina slagi. Eina von oddamanna hans er, að þeim verði hleypt í ríkisstjórn, svo að þeir fái að ljúka pólitískum ferli sínum sem ráðherrar.

Samkvæmt könnuninni nýtast Kvennalistanum ekki hinar vaxandi óvinsældir ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Ekki verður samt séð, að listinn hefði verið bættari með aðild að hinni ógæfulegu stjórn, þótt sumir hafi haldið fram, að hann ætti heima í henni.

Hagnaðurinn af hrakförum stjórnar og stjórnarflokka í skoðanakönnuninni lendir allur hjá Sjálfstæðisflokknum, sem blómstrar í hlutverki forustuflokks stjórnarandstöðunnar á þann einfalda hátt að láta ekki mikið á sér bera og láta leikara stjórnarinnar um leiksviðið.

Hinir raunverulegu sigurvegarar skoðanakönnunarinnar eru þó hinir óákveðnu, sem mynda langstærsta flokkinn, með 42% fylgi. Svo hátt hlutfall óákveðinna hefur ekki mælzt um langan aldur. Það bendir til, að óánægja með stjórnmálaflokkana sé mikil og vaxandi.

Aðalmálið er þó, að kjósendur virðast ekki ginnkeyptir fyrir leikaraskap og öðrum sölubrögðum ímyndarfræðinga, sem telja, að umbúðirnar skipti öllu máli.

Jónas Kristjánsson

DV