Kaldhæðinn eftirleikur

Greinar

Blekið var ekki þornað af nýjum mannréttindasamningi austurs og vesturs í Vínarborg fyrr í þessum mánuði, þegar nokkur austantjaldsríki sýndu í verki, að þau hyggjast ekki fara eftir honum. Þau hófu nýjar ofsóknir gegn þeim, sem hafa aðra skoðun á málum en stjórnvöld.

Samkomulagið á Öryggis- og samstarfsfundi Evrópu á að fela í sér aukin mannréttindi, svo sem trúfrelsi, upplýsingafrelsi og ferðafrelsi. Samkvæmt því má til dæmis ekki hindra fólk í að ferðast úr eigin landi og til þess aftur. Margir telja það marka tímamót í sögunni.

Fundurinn í Vínarborg var einn af mörgum, sem haldnir hafa verið og haldnir verða í framhaldi af undirritun svokallaðs Helsinki-samkomulags austurs og vesturs fyrir hálfum öðrum áratug. Flestir hafa reynzt fremur haldlitlir, eins og Helsinki-samkomulagið sjálft.

Athyglisvert er, hversu lítilþægir fulltrúar Vesturlanda eru, þegar þeir setjast hvað eftir annað að samningaborði með járntjaldsríkjum, þótt fyrri samningar hafi engir verið haldnir, og skrifa þar undir nýja samninga, sem ekki er ætlunin að halda að neinu leyti.

Eftir undirritunina hafa stjórnvöld í Tékkóslóvakíu látið varðhunda sína ganga berserksgang á götunum í Prag, þar sem fólk hefur safnazt saman til að fylgja eftir ýmsum kröfum sínum. Óeirðir lögreglu á torgi Venseslásar eru viljandi ögrun við Vínarsamninginn.

Tékknesk stjórnvöld hafa ennfremur lýst fyrirlitningu sinni á eigin undirritun í Vínarborg með því að ítreka hótanir um að hefja málaferli gegn 14 föngum, þar á meðal hinu fræga leikritaskáldi, Vaclav Havel. Allt gerðist þetta á allra fyrstu dögum samningsins.

Svipaða sögu er að segja frá Austur-Þýzkalandi. Þar hafa stjórnvöld einnig sent varðhunda sína til að hleypa upp friðsamlegum fundum ýmissa hópa, svo sem kristinna manna, umhverfissinna, friðarsinna og svo mannréttindasinna, sem fara mjög í taugar stjórnvalda.

Í Búlgaríu var undirrituninni í Vínarborg fagnað með handtöku 15 félaga í mannréttindasamtökum landsins. Þeir voru síðan látnir lausir, af því að von var á Mitterrand Frakklandsforseta til landsins, en síðan verða þeir örugglega ofsóttir áfram eftir hentugleikum.

Rúmenía er svo kapítuli út af fyrir sig á þessu sviði sem og öðrum. Þrátt fyrir undirritunina í Vínarborg segir ríkisstjórnarpressan í Búkarest berum orðum, að samkomulagsatriðin um aukið trúfrelsi og ferðafrelsi séu spor aftur á bak, sem ekki beri að fara eftir.

Helzt er það í Ungverjalandi og Póllandi, auk Sovétríkjanna sjálfra, að stjórnvöld reyni varlega að feta mannréttindabrautina, sem lögð var með undirskriftum í Helsinki árið 1975 og nú í Vínarborg 1989. Engin ástæða er samt til að hrópa húrra fyrir afrekum þeirra.

Hér í leiðara DV var nýlega bent á, að nokkrar líkur eru á, að varfærnislegar tilraunir Gorbatsjovs Sovét forseta til efnahagslegrar viðreisnar fari út um þúfur. Margt bendir einnig til, að tilraunir hans til opnunar kerfisins mæti harðri andstöðu innan lands og utan.

Með því að leggja sig fram um að óvirða eigin undirskriftir í Vínarborg eru stjórnendur Tékkóslóvakíu, Austur-Þýzkalands og Búlgaríu að senda skilaboð til skoðanabræðra sinna í Sovétríkjunum um að fara að taka í taumana, ef Gorbatsjov fellst ekki á afturhvarf.

Opnun, viðreisn og mannréttindi í Austur-Evrópu er viðkvæmur gróður, sem auðvelt verður að traðka niður í samræmi við kaldhæðni eftirleiks Vínarfundarins.

Jónas Kristjánsson

DV