“Sjóveikur og ruglaður”

Greinar

“Það er kominn tími til, að menn hætti svona vitleysu og fari að tala um alvörumál”, sagði Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga, á spástefnu Stjórnunarfélagsins fyrir helgina. Hann var að tala um ríkisstjórnina, sem stendur í ströngu.

“Það er kominn tími til, að ríkisstjórnin hætti að hugsa um einhver smáatriði”, sagði Guðjón í ræðu sinni. Hann minntist útvarpsfrétta af opinberri ákvörðun um lágmarksverð á tíu til tólf fisktegundum og af ráðherraákvörðun um fjölda leyfðra bjórtegunda.

Guðjón ræddi reynslu sína af rekstri fyrirtækja í Bandaríkjunum og hér á landi. Mismunurinn er einkum sá, að á Íslandi ríkir þungt og þrúgandi kerfi. Sagðist Guðjón ekki ná hér í starfi nema tíunda hluta af þeim árangri, sem hann hefði náð í Bandaríkjunum.

“Hér rær maður í þannig sjó, að maður verður bæði sjóveikur og ruglaður”, sagði Guðjón Sambandsforstjóri í ræðu sinni. Sjaldan hefur ástandi íslenzks atvinnulífs verið lýst betur en í þessum ummælum hans. Vandinn er nefnilega, að ríkisstjórnir ofstjórna landinu.

Sem dæmi má nefna húsnæðismálin. Ekki er fyrr búið að setja í gang nýtt kerfi húsnæðislána með miklu brambolti, en það er talið óalandi. Á handahlaupum er farið að raða saman nýju kerfi. Þannig rekur hvert húsnæðislánakerfið annað, með tilheyrandi óvissu.

Almennt má segja, að ekki sé lengur stjórnað með lögum, heldur með tilskipunum ráðherra, í formi reglugerða á grundvelli heimildarákvæða. Fjármálaráðherra gengur þó lengst, því að hann er farinn að stjórna landinu með yfirlýsingum um væntanlegar tilskipanir.

Ríkisstjórnin hefur á hálfu ári siglt hratt inn í miðstýrt kreppukerfi, sem minnir mjög á tímabilið frá 1930 til 1960, þegar svokölluð Eysteinska ríkti hér á landi. Nú vantar raunar ekki annað en tillögur forsætisráðherra um nýtt kerfi bátagjaldeyris, margfalt gengi.

Efnahagstillögur Steingríms Hermannssonar eru hrollvekjandi. Hann vill, að ríkisstjórnin taki frumkvæði í samningum aðila vinnumarkaðarins. Hann vill, að ríkið tefli þar fram tilboðum um nýjar breytingar á sköttum, vöruverði, vöxtum og verðstöðvunarreglum.

Hann vill líka, að neytendur borgi brúsann í hvert skipti, sem innlendur framleiðandi heldur fram hinni algengu klisju, að erlendur keppinautur eða ríkisstjórn bjóði niður eða greiði niður vöru. Hann vill takmarka innflutning á ódýrri vöru frá láglaunasvæðum.

Forsætisráðherra vill magna velferðarríki fyrirtækja. Hann vill enn einn sjóðinn, sem á að lána þeim fyrirtækjum, sem eru svo vonlaus, að hinn nýi Atvinnutryggingasjóður getur ekki leyft sér að lána þeim. Hann vill því frysta atvinnulífið í núverandi mynd.

Steingrímur vill refsa stranglega fyrir andstöðu við handaflsstefnuna í vaxtamálum. Hann vill misnota bindiskyldu í Seðlabanka til að refsa bönkum fyrir háa innlánsvexti handa sparifjáreigendum. Og með afnámi refsivaxta í Seðlabanka vill hann verðlauna bankasukk.

Áratugum saman hefur ekki sézt eins samfellt rugl og felst í tillögum hins vinsæla forsætisráðherra. Verra en ruglið er þó, að tillögur hans fela markvisst í sér meiri ofstýringu smáatriða af hálfu stjórnvalda en nokkru sinni fyrr. Hann er að framleiða kreppu.

Eftir hálft ár Steingríms í viðbót getur Guðjón í Sambandinu sagt, að ekki sé tíu sinnum erfiðara að starfa hér en í Bandaríkjunum, heldur tuttugu sinnum.

Jónas Kristjánsson

DV