Evrópa er fortíðin

Greinar

Uppruni Evrópubandalagsins leynir sér ekki. Það er verndarstofnun, sem er byggð á grunni forverans, Evrópska kola- og stálsambandsins. Það samband hafði að markmiði að reisa múra umhverfis úreltan kola- og stáliðnað Vestur-Evrópu og vernda hann gegn umhverfinu.

Allar götur síðan hefur Evrópubandalagið fyrst og fremst verið velferðarríki gamalla fyrirtækja í Evrópu, einkum gegn varningi frá hagkvæmara atvinnulífi í Bandaríkjunum og síðar einnig gegn slíkum vörum frá Japan og öðrum uppgangsríkjum Suðaustur-Asíu.

Að baki yfirvarps hugsjónarinnar um sameinaða Evrópu liggur hin kalda staðreynd, að Evrópubandalagið er fyrst og fremst elliheimili atvinnulífsins. Bezta dæmið um það er, að allur þorri fjármagns bandalagsins fer í að halda uppi óhagkvæmum landbúnaði.

Mikið er talað um lækkun og afnám tolla milli landa Evrópubandalagsins. Minni athygli vekur, að verulegur hluti af orku bandalagsins fer í að reisa nýja tollmúra út á við. Saltfiskútflytjendur Íslands þekkja vel tollahækkanir við múra evrópska virkisins, sem er í smíðum.

Athyglisvert er, að Evrópubandalagið gætir nærri aldrei hagsmuna evrópskra neytenda, heldur nærri eingöngu evrópskra framleiðenda og þá venjulega á kostnað evrópskra neytenda. Það heldur uppi háu vöruverði í álfunni með því að bægja keppinautum frá markaði.

Evrópubandalagið er ekki fyrir fólkið í Evrópu, heldur fyrir gömlu fyrirtækin í Evrópu. Það er ekki velferðarríki almennings, heldur atvinnuvega. Það reynir að sjá til þess, að fyrirtækin þurfi sem minnst að hafa fyrir lífinu að baki alls konar hugvitsamlegra múra.

Ef bandarísk fyrirtæki geta selt Evrópumönnum landbúnaðarvörur á heimsmarkaðsverði, er það bannað á ýmsan hátt. Heimsmarkaðsverðið er sagt vera undirboð, þótt margsannað sé, að beztu framleiðendur Bandaríkjanna og margra annarra ríkja standast verðið.

Hið sama er að segja um iðnaðarvörur frá Japan og ýmsum öðrum ríkjum Suðaustur-Asíu. Eðlilegur innflutningur þeirra á heimsmarkaðsverði gæti bætt lífskjör almennings í Evrópu í svipuðum mæli og ódýrar landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum mundu gera.

Evrópubandalaginu er stjórnað af embættismönnum, sem eru skólaðir í velferðarstefnu atvinnuvega. Þeirra heimur felst í tollmúrum og verndaraðgerðum á borð við að tolla öll sjónvarpstæki frá Japan hjá gömlum tollverði í þorpi nokkru inni í miðju Frakklandi.

Þingræði er af skornum skammti í Evrópubandalaginu. Hinir kjörnu fulltrúar sitja eins konar ráðgjafarsamkundu, sem hefur lítil áhrif á skrifræðisliðið. Það stjórnar ferðinni, stutt fjölmennri hirð þrýstihópa, sem hafa aðsetur við aðalstöðvar bandalagsins. Í raun er

Evrópubandalagið eins konar risaútgáfa af íslenzka landbúnaðarráðuneytinu. Báðar stofnanirnar eru framlenging þreyttra atvinnuvega, stjórnverndað samsæri gegn neytendum, ­ heimur innflutningsbanns, útflutningsuppbóta, búmarks og framleiðsluréttar.

Þetta er aðdráttarafl bandalagsins, orsökin fyrir vinsældum þess hjá værukærum stjórnendum fyrirtækja. Þetta er orsök þess, að skynsamlegt tollfrelsisfélag, Fríverzlunarsamtök Evrópu, er á stöðugu undanhaldi fyrir ofurvaldi arftaka Kola- og stálsambandsins.

Við höfum nóg af drekum fortíðarinnar í stjórnsýslu og stjórnmálum Íslands, þótt við gerumst ekki þar á ofan aðilar að fortíðinni á evrópskum vettvangi.

Jónas Kristjánsson

DV