Löður

Greinar

Aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur verið líkt við hina vinsælu sápuóperu, Löður, sem sýnd var í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum. Eftir síaukinn rugling í hverjum þætti, endaði hann með spurningunni: “Eruð þið rugluð? Þið verðið það ekki eftir næsta þátt af Löðri.”

Við svona aðstæður kemur leiðarahöfundum í koll að hafa ofnotað lýsingarorð við aðrar og hversdagslegri aðstæður. Gott væri að eiga hástig lýsingarorðanna eftir, þegar komin er ríkisstjórn, sem er mun lakari og skaðlegri en aðrar, er við höfum mátt þola um dagana.

Prófessorar, sem sitja á friðarstóli inni í Háskóla Íslands, búa ekki við þetta vandamál. Ennfremur eru þeir ekki þátttakendur í dægurþrasi stjórnmálanna og hafa ekki heldur óbeinna hagsmuna að gæta sem stjórnendur eða sérfræðingar samtaka og stofnana úti í bæ.

Því gat Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor notað mun sterkara orðalag en venjulega, þegar honum ofbauð. Hann sagði vaxtaaðgerðir ríkisstjórnarinnar vera “feiknarlega óskynsamlegar” og vísitölubreytinguna vera “óviturlegustu stjórnvaldsákvörðun um árabil”.

Þorvaldur taldi í viðtali, sem birtist hér í blaðinu í gær, að nýjustu efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar væru ekki aðeins feiknarlega óskynsamlegar og hinar óviturlegustu um langt árabil, heldur væru þær “tímaskekkja” og á þeim væri beinlínis “austantjaldsbragur”.

Verðlagseftirlitið, sem ríkisstjórnin hefur rekið að undanförnu undir nafni verðstöðvunar og hyggst reka áfram undir öðru merki, er að mati Þorvalds aðeins gríma til að fela máttleysi stjórnvalda. Það er stundað austan tjalds en ekki í nágrannalöndum okkar.

Þorvaldur sagði í viðtalinu, að lækkun vaxta með handafli mundi draga úr sparnaði þjóðarinnar og óhjákvæmilega leiða til óhóflegrar seðlaprentunar, sem aftur á móti leiðir óumflýjanlega til aukinnar verðbólgu. Hann er þar bara að benda á augljósar staðreyndir.

Ríkisstjórn, sem kom halla A-hluta ríkisfjármálanna upp í sjö milljarða króna í fyrra með því að stofna milljarðasjóði og láta almennt eins og hún ætti í rauninni bót fyrir rassinn á sér, er enn með ráðagerðir um að verja ríkisfé í alls konar bjargráð af austrænu tagi.

Engin leið er í rauninni að rökræða um bráðabirgðaaðgerðir ríkisstjórnarinnar, hvorki hinar fyrri né hinar síðari, af því að þær eru engan veginn á vitrænum og ræðanlegum grundvelli. Þær eru úr einhverri furðuveröld, sem er hvorki í samræmi við reynslu né rök.

Engum dettur í hug, að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar leiði til aukinnar festu í þjóðlífinu. Þær auka bara ruglið og löðrið, sem kemur í veg fyrir, að Íslendingar fái frið til að rækta garðinn sinn. Allir vita, að þær munu leiða til nýrra bráðabirgðaráðstafana í apríl eða maí.

Erfitt er að sjá, hvers vegna ríkisstjórnin fer ekki frá. Ekki er auðvelt að sjá, hvers vegna hún kýs að sitja og magna upp síaukin vandræði á herðar þjóðinni. Eina skýringin er sú, að ráðherrunum finnist persónulega svo gaman að vera á fjölunum að leika ráðherra.

Ástandið er þannig, að ekki er siðferðilega unnt að fara einhverjum silkiorðum um þá staðreynd, að ráðherrarnir eru hinir allra dýrustu og rugluðustu jólasveinar, sem mátað hafa slíka stóla í manna minnum, og að ríkisstjórnin er í sjálfu sér hreint öngþveiti.

Um framhaldslöður sápuóperu ríkisstjórnarinnar má segja, að mestar líkur eru á, að áhorfendur verði enn ruglaðri eftir næsta þátt, sem verður von bráðar .

Jónas Kristjánsson

DV