Hangið í hvala-hvönninni

Greinar

Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra hefur árum saman fengið pólitíska næringu af hvalveiðum. Það var hann, sem fann upp svokallaðar vísindaveiðar, þegar Alþingi hafði samþykkt að gera ekki athugasemdir við veiðistöðvun Alþjóða hvalveiðiráðsins.

Ráðherrann þröngvaði upp á Alþingi hugmynd sinni um að klæða hvalveiðarnar í sauðargæru vísinda. Í því var hann studdur almenningsálitinu, sem sá í ráðherranum blöndu af ýmsum sögufrægum hetjum sínum, allt frá Þorgeiri Hávarssyni að Bjarti í Sumarhúsum.

Hin íslenzka þrautseigja hefur fyrir löngu öðlazt tákn í sjónvarpspersónu ráðherrans. Íslendingar tóku trú á þessa mynd hins íslenzka bónda, sem ver og sækir mál sín með þrætubók og þolinmæði allt til kóngsins í Kaupmannahöfn, þar sem hann hefur sitt fram að lokum.

Hvalveiðideilan hefur gert Halldór að öðrum vinsælasta stjórnmálamanni Íslands. Margir Íslendingar vilja ekki láta segja sér og þjóðinni fyrir verkum, allra sízt bandarískar auðkonur, sem lásu Moby Dick í æsku. Hvalveiði og þjóðrækni hafa runnið saman í eitt.

Makalaust er, að fólk, sem aldrei hefur sýnt nokkurn vísindaáhuga á neinu sviði og sér eftir hverri krónu til slíkra þarfa, skuli telja sér í alvöru trú um, að hvalveiðar okkar séu vísindi. “Ég vil fá vísindaveiðar eins og hinir”, sagði hrefnuveiðimaðurinn í útvarpinu.

Ár og dagur eru síðan unnt var að tala um arð af hvalveiðum. Útflutningsverð svokallaðra vísindaveiða nam 300 milljónum króna árið 1987 og varð minna í fyrra. Frá þessari upphæð verður að draga kostnað við veiðarnar og fundi og ferðalög hvalveiðihirðar Halldórs.

Á móti kemur, að þegar hafa tapazt lagmetismarkaðir í Þýzkalandi fyrir 600 milljónir króna á ári og að 40 manns hafa misst atvinnu hér á landi. Nú er reiknað með, að sölutapið á þessu sviði fari upp í 1,4 milljarða króna á ári og að 160 manns missi atvinnuna.

Á móti kemur einnig, að Sambandið hefur tapað 600 milljón króna freðfiskmarkaði í Bandaríkjunum og 200 milljón króna í Þýzkalandi. Tölur Sölumiðstöðvarinnar eru svipaðar. Samanlagt er sölutap Íslendinga þegar komið yfir 2 milljarða á ári og verður mun meira.

Þetta er ekki hreint tap frekar en að hvalveiðitekjurnar eru hreinar tekjur. Yfirleitt er enn hægt að finna nýja markaði, en venjulega með meiri tilkostnaði og á lægra verði. En augljóst er, að hvalveiðihagsmunir eru sáralitlir í samanburði við aðra útflutningshagsmuni.

Lausn ráðherrans er eins Framsóknarflokksleg og hún getur verið. Hún felst ekki í að hætta hvalveiðum, svo að Íslendingar geti farið að auka tekjur sínar af viðskiptum við aðrar þjóðir. Hún felst í að styrkja fyrirtæki, sem missa erlend viðskipti vegna hvalveiða.

Þannig tvöfaldar sjávarútvegsráðherra tjón þjóðarinnar. Fyrst býr hann til glæra vísindahugsjón, sem kostar milljarða. Síðan bætir hann við stórum fúlgum af fé skattgreiðenda. Er þetta mjög í anda annarrar kvóta- og þjóðnýtingarstefnu hans í sjávarútvegi.

Ráðherrann hefur í nokkur ár aflað sér vinsælda meðal kjósenda á ódýran hátt, sem kunnur er í mannkynssögunni. Hann hefur framleitt óvini í útlöndum handa þjóðinni til að sameinast gegn. Nú er komið að skuldadögunum og þá vísar hann sökinni til Alþingis.

Meiri var hetjuskapur Þorgeirs Hávarssonar, er hann hékk þögull í hvönninni í Hornbjargi og taldi sig þá hafa nægar, er uppi væri sú, sem hann hélt þá um.

Jónas Kristjánsson

DV