Í anda Mussolinis

Greinar

Ráðamönnum Íslands munu senn berast svarbréf starfsbræðranna í Vestur-Þýzkalandi. Svarbréf þýzka forsetans, forsætisráðherrans og sjávarútvegsráðherrans verða kurteislega orðuð eins og svarbréfin, sem Belgíustjórn sendir harðstjóranum Mobutu í Zaire.

Bréfin til Mobutu fjalla óbeint um, að fjölmiðlar í Belgíu séu ekki deild í ríkiskerfinu. Því geti belgíska ríkið ekkert gert, þótt fjölmiðlar þar í landi fjalli ítarlega um glæpi Mobutus, svo framarlega sem fréttaflutningurinn varði ekki við lög um fjölmiðla og fjölmæli.

Bréfin til forseta Íslands, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra munu óbeint fjalla um, að fyrirtæki í Vestur-Þýzkalandi séu ekki deild í ríkiskerfinu og að samtök grænfriðunga séu það ekki heldur. Því geti vestur-þýzka ríkið ekki sinnt kvörtunarefnum Íslendinga.

Stjórnskipan og lög Vestur-Þýzkalands veita ríkinu þar ekki rétt til að amast við, að samtök áhugafólks reyni að fá meðbræður sínar til að kaupa ekki afurðir Íslendinga. Ekki heldur rétt til að amast við, að þýzk fyrirtæki neiti að skipta við íslenzk fyrirtæki.

Þetta er þáttur í dreifingu valdsins, sem er hornsteinn hins vestræna þjóðskipulags, er kallast lýðræði. Þetta sama kerfi hefur lengi verið í notkun hér á landi, svo að íslenzkir ráðamenn eiga að vita betur en Mobutu. Þeir ættu því ekki að heimska sig í bréfaskriftum.

Íslenzkir ráðamenn hafa sent vestur-þýzkum starfsbræðrum erindi, af því að þeir skilja ekki lýðræðið nógu vel. Þeir hafa hinn séríslenzka skilning á þjóðfélaginu, sem kominn er hingað frá manninum, sem kenndi Mussolini hinum ítalska og Jónasi frá Hriflu.

Íslendingum er gjarnt að líta á þjóðfélagið svipuðum augum og hinir ítölsku ungmennafélagsmenn, sem komu á fót fasismanum þar í landi. Menn sjá ríkið sem eins konar líkama, þar sem fólk og fyrirtæki eru einstakir vefir í undursamlegri sinfóníu þjóðlegs samstarfs.

Ef þetta er haft í huga, er auðvelt að skilja hin marklausu bréf forseta okkar, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra. Þá er líka auðvelt að skilja flestar athafnir núverandi ríkisstjórnar og margar athafnir þeirra stjórna, sem flutu að feigðarósi á undan henni.

Í hugarheimi slíkra ráðamanna er heppilegast, að ríkisvaldið stjórni velferð fyrirtækja og fjölskyldna. Ríkið ákveður eins og þjóðarlíkaminn í heild, hvað er einstökum vefjum sínum fyrir beztu. Úr þessu verður hið séríslenzka velferðarríki fyrirtækja.

Ríkið ákveður annan daginn að halda krónugengi föstu. Þegar í ljós kemur, að þetta hefur sett fiskveiðar og fiskvinnslu á höfuðið, ákveður ríkið hinn daginn, að stofna ýmsa sjóði til að halda lífinu í fyrirtækjum í sjávarútvegi. Í báðum tilvikum er ríkið örlagavaldur.

Ríkið ákveður annan daginn að múta bændum til að hefja loðdýrarækt, svo að sauðfjárbændur hafi meira svigrúm. Þegar í ljós kemur, að þetta hefur sett loðdýrabændur á höfuðið, ákveður ríkið hinn daginn að borga þeim tvöfalt útflutningsverð skinna í gustukaskyni.

Þannig vita engir lengur hér á landi, hvað muni snúa upp og hvað niður á morgun. Að völdum sitja menn, sem þykjast þess umkomnir að stjórna frá degi til dags, hverjar verði leikreglur dagsins í atvinnulífinu. Í gær var tígullinn tromp og í dag er tvisturinn hæstur.

Hinir íslenzku Mussolinar hafa svo að aukagetu að heimska sig í útlöndum með kvörtunarbréfum til starfsbræðra um ranga hegðun fyrirtækja og fólks þar á bæ.

Jónas Kristjánsson

DV