Gráhærðir og gjaldþrota

Greinar

Tölvum er ætlað að létta störfin í þjóðfélaginu, bæði þeirra, sem vinna við tölvuskjái, og hinna, sem nota gögn, er koma úr tölvunum. Í reynd er þessu oft öfugt farið. Tölvunotkun hefur oft reynzt til hinna mestu vandræða, flækt mál og gert sum þeirra óleysanleg.

Virðulegt, lítið tímarit hér á landi lenti nýlega í miklum vandræðum, af því að hugbúnaður hafði verið settur upp á þann hátt, að alls konar rugl kom út úr tölvu tímaritsins. Þetta leiddi til, að tekjur þess af áskriftum snarminnkuðu um tíma og að stórfé fór í lagfæringar.

Stjórnendur margra íslenzkra fyrirtækja geta sagt raunasögur af erfiðleikum við að setja upp tölvuvinnslu, bæði af óhóflegum kostnaði og óþægilegu raski. Þar á ofan kostar rekstur tölvanna oft meira en aðferðirnar, sem notaðar voru fyrir tölvuinnreið.

Hér í blaðinu var á laugardaginn sagt frá litlu og hversdagslegu dæmi um vandamál þeirra, sem þurfa að nota gögn frá stofnunum. Það er Búnaðarfélag Íslands, sem hefur lagt niður hin fjögurra stafa ættbókarnúmer hrossa og tekið upp átta stafa kennitölur.

Þetta flækir mál hrossabænda og annarra, sem þurfa að nota upplýsingar Búnaðarfélagsins. Auðveldara er í flestum tilvikum að gera mun á Ófeigi 818 og 882 en Hervari 76157003 og 89136234. Óþarfi er að íþyngja kennitölum þannig með upplýsingum um ár, kyn og staði.

Undantekning frá þessu eru nýju kennitölur mann fólksins í landinu. Þær eru nothæfar, af því að flestir muna sinn eigin fæðingardag og þurfa því ekki að leggja á minnið annað en fjögurra stafa viðbótartöluna. Þær kennitölur eru því betri en átta stafa nafnnúmer.

Búnaðarfélagið hefði vel getað notað gömlu númerin og látið tölvuna skrifa út aðrar upplýsingar um hrossin eftir þörfum hverju sinni. En þar er einhver, sem ekki hefur nennt að gera hlutina aðgengilega fyrir notendur. Og svo er tölvunni auðvitað kennt um ófarirnar.

Enginn vandi er að haga vali á tölvum og hugbúnaði á þann hátt, að notuð séu að tjaldabaki löng og flókin númer til aðgreiningar, en út á við komi allt fram með ljósum og einföldum hætti, nema sérstaklega sé óskað eftir flækjunum til ákveðinna og sérhæfðra nota.

Furðulegt er, hvað íslenzkir ráðamenn fyrirtækja og aðrir notendur tölva eða tölvugagna hafa látið bjóða sér og láta bjóða sér enn. Til dæmis er sífellt verið að kaupa tölvur og hugbúnað, sem þarf að íslenzka og síðan laga að þörfum með ærnum kostnaði og harmkvælum.

Nær enginn notar hins vegar vinsamlegan gagnagrunn á borð við Gorminn, sem býður upp á fullkomið og klæðskerasaumað bókhald með gagnkvæmt afstæðri skráningu upplýsinga og yfirleitt alla þá skriffinnsku, sem mönnum getur dottið í hug, allt eftir þörfum hvers.

Hann er dæmi um hugbúnað, sem er þannig vaxinn, að hann verður íslenzkur um leið og farið er að nota hann. Einnig er hann er dæmi um hugbúnað, sem unnt er að laga að sérstæðum þörfum án þess að kunna nokkuð í forritun eða stafsetningu forritunarmála.

Vandi notenda felst meðal annars í, að hin fjölmenna stétt tölvuráðgjafa og tölvukennara hefur ekki hag af, að notendur komi sér upp vinsamlegum tölvum með vingjarnlegum hugbúnaði, sem kemur í veg fyrir, að notendur verði í senn gráhærðir og gjaldþrota.

Ef menn gerðu sér grein fyrir, að tölvur eiga að létta lífið, og miðuðu kröfur sína við það, mundi mörg krónan sparast og mörg áhyggjustundin niður falla.

Jónas Kristjánsson

DV