Sumt sameinar

Greinar

Jafnvel þótt austur í Sovétríkjunum verði innan tíðar horfið frá opnunar- og viðreisnarstefnu Gorbatsjovs, er líklegt, að áfram verði nokkur þíða í samskiptum austurs og vesturs. Það stafar af, að ýmis brýn verkefni, hagnýt og utanpólitísk, bíða alþjóðlegs samstarfs.

Ef óþolinmóðir valdamenn í Sovétríkjunum gefast upp fyrir óþægindunum, sem fylgja opnunar- og viðreisnarstefnunni, mun afturhvarfið einkum felast í endurheimtri miðstýringu og harðstjórn heima fyrir og í fylgiríkjunum, en miklu síður á alþjóðlegum vettvangi.

Ráðamenn í Sovétríkjunum, fleiri en Gorbatsjov einn, hafa lært af reynslu síðustu ára. Hrakfarir innrásarliðsins í Afganistan munu um langt skeið draga úr löngun þeirra í hernaðarleg ævintýri í útlöndum, jafnvel þótt þau beini athyglinni frá ofstjórninni innanlands.

Ágreiningsefnum og ásteytingarsteinum heimsveldanna tveggja hefur fækkað. Hernaðaríhlutuninni í Afganistan er lokið. Stríð Írana og Íraka við Persaflóa er hljóðnað að sinni. Verið er að semja um brottför Kúbverja frá Angólu og brottför Víetnama frá Kampútseu.

Þegar athygli heimsveldanna beinist frá staðbundnum átökum sem þessum, fá þau betri tíma til að ræða sameiginlega hagsmuni, sem verða brýnni með hverju árinu. Eitt þessara atriða er hinn sameiginlegi ótti við vaxandi gengi múhameðstrúar og aukinn ofsa hennar.

Þetta varðar Sovétríkin ekki síður en Vesturlönd. Íslam er að eflast innan Sovétríkjanna og hrakförin í Afganistan gefur trúhneigðum Sovétmönnum byr undir báða vængi. Sovétríkin og Vesturlönd þurfa að móta samráð um leiðir til að bregðast við slíkum vanda.

Morðhótanir og morðhvatningar ráðamanna í ríkjum íslams vegna skáldrits Salmans Rushdie valda Vesturlandabúum áhyggjum, því að þær beinast gegn grundvallarhugsjónum vestrænnar menningar. En Sovétleiðtogum er ekki heldur sama um slíka íhlutun.

Ráðamenn í Sovétríkjunum eru raunar að mestu hættir að róa undir hryðjuverkum. Þeir hafa mátt þola, að sum hryðjuverk hafa beinzt gegn þeirra eigin mönnum. Því eru þeir nú reiðubúnir til samstarfs um gagnkvæma miðlun upplýsinga um hryðjuverkamenn.

Vesturlönd hafa verið að byggja upp samstarf stofnana, sem fara með löggæzlu og leyniþjónustu, í vörnum gegn hryðjuverkum. Vegna eigin öryggis og þegna sinna hafa Sovétríkin gagn af að taka þátt í þessu starfi, sem þegar er farið að skila nokkrum árangri.

Skyldar þessu eru varnirnar gegn útbreiðslu fíkniefna. Stríðið í Afganistan magnaði neyzlu þeirra innan Rauða hersins. Skynsamir valdamenn í Sovétríkjunum sjá nú, að eiturefni þessi eru ekki bara mara á Vesturlöndum, heldur einnig farin að ríða húsum austan tjalds.

Varnir gegn íslam, hryðjuverkum og fíkniefnum eru þrjú sjálfstæð mál, sem þó tengjast á ýmsa vegu. Í heild er þetta flokkur verkefna, sem vafalaust mun færa Sovétríkin nær Vesturlöndum á næstu árum. Annar flokkur verkefna er á sviði varna gegn umhverfismengun.

Loksins eru leiðtogar í Austur-Evrópu farnir að skilja, að mengun er ekki óviðráðanlegt náttúruafl. Verndarsinnum hefur vaxið ásmegin, ekki sízt í Sovétríkjunum. Líklegt er, að senn hefjist viðræður um samstarf um vernd ózonlagsins og andóf gegn hækkuðu hitastigi.

Því meira sem Sovétríkin tengjast Vesturlöndum í ýmsum sameiginlegum hagsmunum, þeim mun minni líkur eru á, að þau verði til vandræða í hernaði.

Jónas Kristjánsson

DV