Sorp og skolp á vergangi

Greinar

Losun á sorpi og skolpi hefur lengi verið til skammar á höfuðborgarsvæðinu. Nánast engin vinnsla hefur verið á úrgangsefnum, síðan Reykjavíkurborg gafst upp á framleiðslu skarna í sorpeyðingarstöð í Ártúnshöfða. Og nýjustu ráð til úrbóta hafa reynzt umdeilanleg.

Komið hefur í ljós, að sameining skolps í stórar dælustöðvar hefur hingað til gert illt verra við strendur höfuðborgarinnar. Volgt og ósalt skolpið vellur úr útfallsrörunum 50 metra frá landi og stígur upp á yfirborð sjávar, þar sem það myndar víðáttumikla flekki.

Í hvassviðri fýkur skolpið síðan aftur upp á land, svo sem gerzt hefur nokkrum sinnum í vetur. Heilbrigðisyfirvöld sveitarfélaga og ríkis virðast ekki enn hafa tekið eftir þessum vanda og hafa komið meira eða minna af fjöllum, þegar þau hafa verið spurð um hann.

Einnig hefur komið í ljós, að svokallaðar hreinsunarstöðvar, sem settar hafa verið upp við Kirkjusand og Skúlagötu, eru í rauninni ekki neinar hreinsunarstöðvar, heldur fyrst og fremst söxunarstöðvar og dælustöðvar. Þannig hefur blekkingu verið haldið á lofti.

Borgaryfirvöld verja sig með því að segja, að eftir fjögur ár verði útstreymi skolpsins komið 400 metra frá landi í stað 50 metra. Þetta sé afar dýrt verk, svo sem upp á eina Öskjuhlíðarkringlu eða ráðhús. Meiri tilkostnaður muni koma niður á lífskjörum borgarbúa.

Gegn þessu má fullyrða, að það sé í þágu lífskjara borgarbúa að fara dýrari leið, ef hún nær betri árangri. Lagt hefur verið til, að borgin setji upp alvöru skolphreinsistöð úti í Engey. Það er langtum dýrara en borgin er nú að gera, en gæti leyst vandann að mestu.

Ekki er betra ástandið í sorphirðu höfuðborgarsvæðisins. Ruslhaugarnir í Gufunesi hafa lengi verið til háborinnar skammar. Nú er ætlunin að setja upp stöð, er flokki sorp í grófum dráttum og bindi það í bagga, sem verði urðaðir með tiltölulega snyrtilegum hætti.

Margir telja, að fyrirhuguð sorpböggun sé of gamaldags í samanburði við miklu nákvæmari flokkun, sem komið hefur verið á í sumum nágrannalöndum okkar. Er böggunin þó spor í rétta átt, því að hún skilur tré og málma frá sorpinu og gerir kleifa endurvinnslu.

Aðalvandinn er, að svæðisbundin andstaða hefur komið í veg fyrir, að sorpböggunin og sorpurðunin verði á heppilegustu stöðunum, böggunin í nágrenni Rauðavatns og urðunin á Kollafjarðarsvæðinu. Er því málið að komast í ógöngur í Hafnarfirði og Krýsuvík.

Bent hefur verið á, að sorpböggun á Hellnahrauni í Hafnarfirði sé ofan á einu af mestu og beztu grunnvatnssvæðum landsins. Það sé óskynsamlegt, því að vatn sé ein dýrmætasta auðlind Íslands og gæti sennilega orðið mikilvæg útflutningsafurð í náinni framtíð.

Þegar hafa menn áhyggjur af vatnsskorti vegna mikillar þenslu í fiskeldi á strönd Reykjanesskaga. Fiskeldisstöðvar nota mikið af fersku vatni. Farið er að tala um, að stofna þurfi vatnsverndarfélag og takmarka fjölda stöðvanna vegna skorts á heppilegu vatni.

Vel getur verið, að sorpböggun spilli ekki neðanjarðarvatni. En talsmenn hennar hafa ekki sett fram neinar sannfærandi röksemdir um það. Yfirvöld í Hafnarfirði vilja stöðina, meðal annars af því að hún flýtir uppbyggingu iðnaðarsvæðis á hinu sama Hellnahrauni.

Þótt vandamál sorps og skolps séu nú tekin fastari tökum en áður á höfuðborgarsvæðinu, er ástæða til að efast um, að nógu hart sé gengið fram í umhverfisvernd.

Jónas Kristjánsson

DV