Vaðmálsmenn í valdastóli

Greinar

Óðum er að skýrast myndin af hinni raunverulegu stjórnmálabaráttu, sem hefur verið háð hér á landi öldum saman og er enn. Það er stríðið milli sjávarútvegs og iðnaðar annars vegar og landbúnaðar hins vegar, sem sagnfræðingar hafa í vaxandi mæli að umfjöllunarefni.

Gísli Gunnarsson reið á vaðið með doktorsritgerð sinni um einokunarverzlun sautjándu og átjándu aldar. Hann sýndi fram á, að íslenzki embættis- og landeignaaðallinn barðist gegn afnámi einokunarinnar, þegar Skúli fógeti og danski kóngurinn vildu afnema hana.

Ólafur Stephensen stiftamtmaður var forustumaður byggðastefnu þess tíma, er bændur vildu hindra, að dugmiklir vinnumenn heimtuðu meira kaup. Fræg eru orð hans, er hann kvað áríðandi, að “landjarðir verði eigi yfirgefnar vegna of mikilla tillokkana fólks að sjó”.

Gísli sýnir í ritgerð sinni, hvernig íslenzkir landeigendur fengu haldið niðri verði á sjávarvörum til að halda uppi háu verði á ullarvörum. Þannig fjármagnaði sjávarútvegurinn landbúnað á fyrri öldum, eins og hann gerir núna í formi opinberrar gengisskráningar.

Vaðmálsmenn töpuðu hörmangaraorrustunni á sínum tíma, en þeir gáfust ekki upp í styrjöldinni. Ólafur Ásgeirsson sagnfræðingur hefur kortlagt sveiflurnar í valdajafnvægi fortíðar- og framtíðarstefnu íslenzkra atvinnuvega á fyrstu fjórum áratugum þessarar aldar.

Í bókinni Iðnbylting hugarfarsins skiptir hann þessu tímabili í fjóra hluta. Fyrst var sigurför iðnbyltingar í sjávarútvegi fyrstu tvo áratugina. Síðan stóð gagnsókn landbúnaðarins þriðja áratuginn. Fyrri helming fjórða áratugarins voru iðjuöflin aftur í skammærri gagnsókn.

Loks segir Ólafur, að tímabilið 1936­1939 hafi verið sigurtími sveita, er vaðmálslið Framsóknarflokksins stjórnaði landinu. Það barðist gegn stórframkvæmdum, framlengdi kreppuna, braut iðjustefnuna á bak aftur og fór að hlaða virki gegn ódýrum mat frá útlöndum.

Þá lýsti handbók flokksins lífi í þéttbýli á þennan hátt: “…menningarlaus úthverfalýður, sem ferst, kynslóð á kynslóð ofan, í örbirgð og óþrifum miklu meiri en unnt er að gera sér sér í hugarlund um það, sem viðbjóðslegast muni vera og sorglegast í mannheimi”.

Síðustu árin hafa vaðmálsmenn náð sífellt betri tökum á stjórnmálunum. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki haldið upp á afmæli sitt á réttum tíma út af sauðburði. Þingmenn flokksins rísa upp í vandlætingu, þegar ráðherra Alþýðuflokks gagnrýnir ofbeit sauðfjár.

Alþýðubandalagið hefur verið að fjarlægjast hag fræðihyggju, af því að gengi Karls Marx hefur farið lækkandi á alþjóðamarkaði. Í staðinn hefur vaðmálsstefna náð völdum. Gamlir þjóðvarnar- og framsóknarmenn ríða þar öllum húsum og hamast gegn neytendum.

Kvennalistinn er meira eða minna gegnsýrður vaðmálshyggju og gætir alls ekki hagsmuna neytenda í þéttbýli. Flokkurinn er gefinn fyrir að vernda allt sem fyrir er, þar á meðal hinn hefðbundna landbúnað og byggð landsins í nákvæmlega því horfi, sem hún er nú.

Alþýðuflokkurinn var dálítið upp á nýja móðinn í tíð Gylfa Þ. Gíslasonar, sem sá í gegnum vaðmálshyggjuna. Jón Sigurðsson hefur einnig abbast upp á hana. Að öðru leyti er flokkurinn svo tækifærissinnaður, að fylgjendur röskunar og framfara hafa lítið hald í honum.

Á sama tíma og fræðingar eru að fletta ofan af sögulegu samhengi íslenzkrar vaðmálsstefnu, er hún um þessar mundir traustari en nokkru sinni í valdastóli.

Jónas Kristjánsson

DV