Álagavefurinn

Greinar

Loðdýraævintýrið, sem stjórnvöld og stofnanir landbúnaðarins skipulögðu að ofan, er orðið að martröð. Á þessu ári hyggst ríkið verja 521 milljón króna í ýmsa fyrirgreiðslu í þágu atvinnugreinar, sem reiknað er með, að selji skinn til útlanda fyrir 140 milljónir króna.

Aðstoðin nemur nærri fjórföldum tekjum greinarinnar. Ódýrara er því að senda hverjum loðdýrabónda launaávísunina beint, en þá með því skilyrði, að skattgreiðendur væru ekki ónáðaðir frekar af atvinnugreininni. Loðdýrabændum væri borgað fyrir að gera ekkert.

Þannig er loðdýrarækt komin í hóp hefðbundinna búgreina. Einkenni þeirra er, að reksturinn er svo dýr, að einfaldara er fyrir ríkið og skattgreiðendur að senda bændum launin beint, en láta alla aðra aðstoð eiga sig. Einkenni þeirra er, að peningum er brennt til einskis.

Loðdýraræktin hefur í einu vetfangi stokkið og sokkið í dý, sem kartöflurækt, eggjaframleiðsla og kjúklingaeldi hafa verið að síga í á mörgum árum. Landbúnaðarfenið í heild kostar skattgreiðendur meira en sjö milljarða króna í beinhörðum útgjöldum á þessu ári.

Fyrir mánuði var talið, að tap ársins næmi sex og hálfum milljarði. Síðan hefur að venju komið í ljós, að upphæðin er vanmetin. Ríkið neyðist til að verja um 300 milljónum til viðbótar í uppbætur og um 300 milljónum í niðurgreiðslur. Dæmið fer því yfir sjö milljarða.

Dulbúna atvinnuleysið í landbúnaði kostar líka erlendan gjaldeyri. Aðföng landbúnaðar eru mikil, einkum olía og áburður. Með verulegum samdrætti í landbúnaði mundi sparast mikill gjaldeyrir, sem nota mætti til að kaupa erlenda búvöru og lækka vöruverð í landi.

Ef þjóðfélagið létti landbúnaðarbyrðinni af baki sér, mundu sparast margir milljarðar til að bæta lífskjör þjóðarinnar og snúa kreppunni í þenslu. Þess vegna er brýnt, að ríkið veiti verzlunarfrelsi í búvöru og hætti fjárhagslegum afskiptum sínum af landbúnaði.

Ef 4.200 bændur og 800 starfsmenn vinnslustöðva fengju sendar 50.000 krónur í pósti mánaðarlega í nokkur ár til að auðvelda þessa aðlögun, mundi ríkið ekki missa til baka nema þrjá milljarða af sjö milljörðum, sem nú fara í súginn. Það yrði því töluverður afgangur.

Í staðinn er unnt að benda fólki á, að til eru búgreinar, sem ekki liggja uppi á ríkinu. Þar eru fremstar í flokki ferðaþjónusta bænda og hrossarækt. Ennfremur þarf þjóðfélagið að fá bændur í skógrækt. Loks er eðlilegt að ríkið bjóði bændum haldgóða endurmenntun.

Ótalinn er svo hagnaðurinn, sem hlytist af friðun afrétta. Ef ofangreindar aðgerðir minnkuðu sauðfjárrækt um meira en helming, væri unnt að alfriða víðáttumiklar afréttir á móbergssvæðinu og snúa loksins vörn í sókn í baráttunni gegn aldagamalli landeyðingu.

Árum saman hefur verið brýnt, að kjósendur átti sig á, að þjóðfélagið er bundið í álög ríkisrekstrar á landbúnaði. En nú er fjárhag heimila, atvinnufyrirtækja og ríkisins sjálfs svo hörmulega komið, að ekki verður lengur undan vikizt að reka ófögnuðinn af höndum sér.

Þegar kjósendur rísa loksins upp, dugar ekki minna en að skipta að mestu leyti um stjórnmálamenn og -flokka. Þeir, sem hingað til hafa skipzt á um að fara með völdin, eru allir sekir um að hafa ofið álögin. Þeir vilja hvorki leysa þjóðina úr álögunum né geta það.

Lausnin felst í að senda bændum tékkinn beint og neita öllum öðrum fjárhagslegum afskiptum af landbúnaði, svo og verndun hans gegn ódýrum matvörum.

Jónas Kristjánsson

DV