Atli Húnakonungur

Greinar

Við höfum áreiðanlega gott af að kynnast alvörukreppu eftir nær samfellda, þriggja áratuga þenslu í þjóðlífinu. Þessi kreppa er nú hafin og á eftir að magnast fram eftir ári. Hún lýsir sér meðal annars í gjaldþroti fyrirtækja, atvinnuskorti og minna hungri í lánsfé.

Við erum orðin svo vön velgengninni, að mörgum okkar finnst hún vera orðin að eins konar náttúrulögmáli. Sumir eru meira að segja svo fjarri efnahagslegum raunveruleika hinnar aðvífandi kreppu, að þeir eru að fara í verkfall eins og ekkert hafi í skorizt.

Merkast við kreppuna okkar er, að hún á sér engar forsendur í útlöndum. Hún er algerlega heimasmíðuð. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lagði grundvöll hennar með fastgengisstefnu og stjórn Steingríms Hermannssonar hefur keyrt hana á fullt með ótal aðgerðum.

Engin ríkisstjórn í allri Íslandssögunni hefur verið eins dugleg og sú ríkisstjórn, sem nú situr. Eftir rúmlega hálfs árs setu hennar eru rústirnar í þjóðfélaginu þvílíkar, að þær væru ekki meiri, þótt Atli Húnakonungur hefði þeytzt yfir landið með riddurum sínum.

Engri annarri stjórn en Steingríms Hermannssonar og Halldórs Ásgrímssonar hefði komið í hug að grýta tíu milljörðum króna af almannafé til björgunar fyrirtækja. Af þessum tíu milljörðum eru þrír í beinum framlögum og sjö í ýmsum skuldbindingum, er falla á ríkið.

Ríkisstjórn þeirra félaga hefur gert loðdýrarækt að ómaga á borð við hefðbundinn landbúnað og er að gera garðyrkju og fiðurfjárrækt að slíkum ómaga. Þar á ofan hefur henni, fyrstri allra ríkisstjórna, tekizt að koma hornsteininum, sjávarútveginum, í tölu löggiltra ómaga.

800 milljónir fara í lán verðjöfunarsjóðs fiskiðnaðar og verða ekki endurgreiddar, að sögn Halldórs. 1000 milljónir fara í atvinnutryggingarsjóð og 1000 þar á ofan í ríkisábyrgðir hans. 600 milljónir fara í hlutafjársjóð og 100 í niðurgreitt rafmagn til fiskiðnaðarins.

Þessar slummur eru að töluverðu leyti afleiðingar fastgengisstefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar, sem sat á undan henni. Fyrst taka yfirvöld stórfé með handafli frá útflutningsatvinnuvegunum og neyðast síðan til að færa þeim fé til baka með annars konar handafli.

Sjálfur ríkissjóður er rekinn með því að prenta peningaseðla og þynna gjaldmiðilinn. Þannig var búinn til hálfur þriðji milljarður ímyndaðra króna í janúar og febrúar. Þetta stafar meðal annars af, að engir kaupendur eru að ríkisskuldabréfum, sem bera 7,5% raunvexti.

Við erum að sigla inn í afar einkennilegt ástand. Í því vilja menn hvorki taka lán né veita lán. Í ástandinu fer saman verðbólga, sem byggist á fjáraustri ríkisins í tengslum við handafl af ýmsu tagi, og svo heimasmíðuð kreppa, sem byggist á gjaldþroti atvinnulífsins.

Með sjónhverfingum hafa stjórnvöld gert þjóðinni kleift að lifa meira um efni fram en áður hefur tíðkazt. Á fimm árum hefur hlutur launa hækkað úr 60% þjóðar kökunnar í 73% hennar. Og svo er fólk í ofanálag að fara í verkfall til að krefjast betri lífskjara.

Sparnaður er að leggjast niður í þjóðfélaginu. Hann hefur á sextán árum fallið úr 31% í 15% þjóðartekna. Þjóðin lifir svo mjög um efni fram, að hún hefur ekki lengur efni á að fjárfesta í framtíðinni. Enda er Atli Húnakonungur önnum kafinn við að lækka vextina.

Kosturinn við þetta er, að ríkisstjórnin er orðin óvinsælli en nokkur önnur stjórn, síðan mælingar hófust. Vonandi er hún ekki búin að bíta úr þeirri nál.

Jónas Kristjánsson

DV