Borg lundabúðanna

Punktar

Í miðbæ Reykjavíkur tekur einn niðurrigndur plast-hvítabjörn við af öðrum til að gleðja túrista. Samt má fárveikur hvítabjörn ekki sjást í útskerjum án þess að blóðþyrst lögga æði á vettvang með morðvopn. Inn á milli eru lundabúðir, er selja plastlíki af nær útdauðum fugli. Kvosin er seld sem leifar víkingaþorps, þótt hér hafi aldrei verið víkingar. Firringuna drekka túristar í sig, þegar þeir hafa farið í skítugt Bláa lónið. Þar sem ég þyrði aldrei að útbía mig. Rútur stunda vinsælan utanvegaakstur afturábak fyrir túrista í Þingholtunum. Þeir flykkjast í byggðir huldufólks. Við erum fljót að fatta, að firring selur bezt.