Talmálið á bágt

Greinar

Fólk gleymir stundum, að íslenzk tunga skiptist í ritmál og talmál. Í hvorum þætti um sig er við vandamál að glíma. Í ritmáli er vandinn að flestu leyti gamalkunnur. Hinir nýju erfiðleikar stafa hins vegar að mestu af útþenslu talaðra fjölmiðla, útvarps og sjónvarps.

Í ritmáli hefur lítil breyting orðið önnur en, að afþreyingarbókmenntir hafa að nokkru vikið fyrir hliðstæðri afþreyingu í sjónvarpi. Hinar lélegu þýðingar og hráslagalegi prófarkalestur, sem einkenna þessa bókmenntagrein, hafa því nokkru minni áhrif en áður.

Um leið hefur aukizt notkun annars lesefnis almennings. Það eru dagblöðin, sem hafa í auknum mæli orðið að takast á herðar að vera til fyrirmyndar í rituðu máli á markaði fjöldans. Þau ná til hinna mörgu, sem ekki sækja málnæringu úr vönduðum fagurbókmenntum.

Á hverjum degi má tína villur úr öllum dagblöðum og það er gert. Blöðin eru prentað mál, sem liggur frammi. Fólk getur velt vöngum yfir tökum höfundanna á máli og stíl. Ef það er gert af sanngirni, verður niðurstaðan, að dagblöðin eru almennt séð á vönduðu ritmáli.

Morgunblaðið hefur áratugum saman verið tekið sem dæmi um fjólur í íslenzku. Enn þann dag í dag er á því blaði lögð heldur minni áherzla á prófarkalestur en gert er á öðrum dagblöðum. Samt verður ekki hægt að segja, að Morgunblaðið falli á hinu daglega prófi.

Hér á DV hefur frá upphafi verið lagt meira fé í vandaðan prófarkalestur en gert er á öðrum dagblöðum. Ráðamenn blaðsins vilja notfæra sér, að ritað mál felur í sér biðtíma,

er nota má til lagfæringa, sem ekki er unnt í talmáli andartaksins í útvarpi og sjónvarpi. Ekki er unnt að segja hið sama um ritmálið, sem birtist á sjónvarpsskjánum. Í samanburði við ritmál blaðanna er það einkar hroðvirknislegt, þótt tími ætti að vera til lagfæringa. Það verður engan veginn talin góð auglýsing um þýðingarskyldu á sjónvarpsstöðvum.

Efast má til dæmis um, að íslenzkri tungu sé nokkur vörn í textanum, sem birtist með afþreyingu og barnaefni Stöðvar 2. Betra væri að fella þýðingarskylduna niður eða minnka hana, en koma í staðinn upp skyldu prófarkalestrar á því efni, sem þýtt er á annað borð.

Minna er fjallað en vert er um ritmál í sjónvarpi, eingöngu af því að það kemur á skjáinn og fer í miklum flýti. Fólk hefur ekki mikinn tíma til að íhuga málfar skjásins á sama hátt og það getur hugleitt málfar dag blaðs, sem það hefur fyrir framan sig langtímum saman.

Erfiðleikar ritmálsins stafa þó einkum af, að hefðbundin kennsla í málfræði og stafsetningu hefur látið á sjá í skólum landsins. Um langt árabil hefur ríkt í skólamennsku hin hættulega tízkuhugmynd, að íslenzkunám eigi ekki að vera staglkennt, heldur skemmtilegt.

Erfiðleikar talmálsins eru þó orðnir sýnu alvarlegri. Talað mál er með vaxandi hraða að fjarlægjast ritmál. Sumt fólk hefur vanið sig á að bera aðeins fram fyrri hluta orða. Aðrir tala illskiljanlegt klisjumál úr opinberum stofnunum. Og málhelti breiðist út óðfluga.

Verst er, að þjóðin hefur í öllu þessu fyrirmynd úr hinum töluðu fjölmiðlum. Lengi hefur tíðkazt, að plötusnúðar noti ekki íslenzka hrynjandi. Og málhelti af ýmsu tagi er útbreitt, ekki síður meðal “evstu” fréttaþula í sjónvarpi en annarra, sem þar koma minna fram.

Fjölgun útvarps- og sjónvarpsstöðva kallar á sameiginlegt átak þeirra til varnar réttu talmáli. Það er fyrsta, annað og þriðja verkefnið í verndun íslenzkrar tungu.

Jónas Kristjánsson

DV