Tveimur sparkað út og upp

Greinar

Sagt hefur verið, að í Bretlandi gamla tímans hafi elztu synirnir erft herragarðinn, miðsynirnir farið í utanríkisþjónustuna og hinir yngstu orðið sjóliðsforingjar. Það er því hvorki nýtt né séríslenzkt, að utanríkisþjónusta sé notuð sem eins konar atvinnubótavinna.

Því hefur líka verið haldið fram, að ein helzta orsök þess, hversu dauflega Bandaríkjunum gengur í samskiptum við önnur ríki, sé tilhneiging forseta til að verðlauna stuðningsmenn, fjáraflamenn og starfsmenn úr kosningabaráttu með sendiherrastörfum úti í heimi.

Hin íslenzka útgáfa þessa vandamáls er, að stjórnmálamenn, sem eru búnir að vera á innlendum markaði eða eru þar fyrir öðrum af einhverjum ástæðum, eru dubbaðir upp sem sendiherrar. Nú er búið að senda einn til Parísar og annar á förum til Bruxelles.

Komið getur fyrir, að fyrrverandi stjórnmálamenn standi sig vel á hinum nýja vettvangi, þótt hin dæmin séu fleiri. Það má líka ljóst vera, að þeir eru ekki skipaðir vegna hæfileika sinna til starfa að utanríkismálum, heldur til að leysa óskyld mál heima á Íslandi.

Ef slík vinnubrögð komast í vana, er hætt við, að rétta fólkið sæki ekki um störf í utanríkisþjónustunni. Greint hæfileikafólk leitar ekki á þann vettvang, ef það sér litla sem enga möguleika á að vinna sig upp í sendiherrastöður, sem eru fráteknar fyrir aðra.

Ennfremur má fastlega gera ráð fyrir, að starfsliðið, sem komið er inn fyrir dyr utanríkisráðuneytisins, leggi ekki eins hart að sér, ef það sér ekki fyrir sér gulrót hugsanlegrar sendiherrastöðu undir lok starfsferilsins. Samkeppni og metnaður verða minni en ella væri.

Á móti má segja, að öllum stofnunum sé mikilvægt að fá nýtt blóð að utan, svo að þær staðni ekki. En þá er í fyrsta lagi verið að tala um undantekningar, en ekki um reglu. Og í öðru lagi er verið að tala um fólk, sem tekið er inn vegna augljósra hæfileika til starfans.

Stjórnmálamenn eru ekki skipaðir á þeim forsendum. Albert var skipaður til að auðvelda ríkisstjórninni að ná meirihluta í atkvæðagreiðslum á Alþingi. Og Kjartan verður skipaður til að rýma fyrir Jóni Sigurðssyni vaxtaráðherra á næsta framboðslista Alþýðuflokksins.

Mikill kostnaður er lagður í utanríkisþjónustu lýðveldisins. Það er talið stuðla að sjálfstæði þjóðarinnar, að ríkið haldi uppi öflugu starfi á erlendum vettvangi. Því er alltaf mikið í húfi, að hæfileikamikið og dugmikið fólk gegni þar lykilhlutverki á öllum stigum.

Þörfin hefur aukizt á síðustu árum, til dæmis vegna hvalamálsins. Halldór Ásgrímsson hefur tryllt þjóðina inn í öngstræti, sem erfitt er að verja á erlendum vettvangi. Hvert sem litið er utan landsteinanna, má sjá, að málstaður Íslands er ekki í hávegum hafður.

Brýnt er, að utanríkisþjónusta okkar sé nýtt að fullu til að draga eftir megni úr tjóni okkar af hvalveiðistefnunni. Þjónustan hefur of lítið látið að sér kveða á þeim vettvangi. Ekki bætir úr skák, að pólitískar mannaráðningar draga núna úr vinnugleði og starfsafköstum.

Eftir sjö ára hlé frá pólitísku braski með sendiherrastóla var komin ástæða til að vona, að íslenzkir þjóðarleiðtogar hefðu öðlazt þroska til að forðast braskið. En nú hefur Jón Baldvin Hannibalsson í tvígang á einu ári sýnt ábyrgðarleysi, sem mun hafa hættuleg eftirköst.

Hans verður minnzt sem ráðherrans, er endurvakti gamla spillingu, sem heldur þroskaðri fyrirrennarar hans voru búnir að leggja niður fyrir sjö árum.

Jónas Kristjánsson

DV