Húsbréf að hausti

Greinar

Þótt húsbréfin fyrirhuguðu séu að mörgu leyti álitlegri kostur en rústir núverandi húsnæðislánakerfis, er rétt að lögleiða þau ekki í vor, heldur skoða málið betur til hausts. Fram hafa komið rökstudd sjónarmið um, að húsbréfin muni ekki ná tilætluðum árangri.

Í leiðurum DV hafa húsbréfin verið studd í meginatriðum, enda fela þau í sér tilraun til að fjármagna kerfið að innanverðu í auknum mæli, í stað þess að treysta á síhækkandi framlög ríkisins. Meginhugsun bréfanna er rétt, þótt undirbúningur þeirra sé ekki nægur.

Síðustu vikur hafa nokkrir fræðimenn varað við hliðaráhrifum húsbréfanna. Meðal annars hefur verið haldið fram, að þau hafi svipuð áhrif og seðlaprentun og valdi þannig verðbólgu. Einnig muni þau hækka vexti og reka sig á vegg takmarkaðs innlends sparnaðar.

Of langt og flókið yrði að þræða rökin í afmörkuðu rými eins leiðara. Hins vegar er auðvelt að rekja viðbrögð húsnæðisráðherra. Þau hafa gengið á svig við innihaldið. Þau hafa einkum falist í hótunum og úrslitakostum og í væli um, að allir séu vondir við ráðherrann.

Húsbréfaráðherrann og hennar lið virðast ekki hafa kynnt sér efni gagnrýninnar eða ekki kæra sig um að kynna sér það. Þess vegna svarar ráðherra engu, heldur endurtekur í síbylju ýmislegt bull á borð við, að frestun málsins kosti hálfan milljarð króna á mánuði.

Einkennileg viðbrögð ráðherrans eru til þess fallin að efla vantrú á húsbréfum. Offors hennar hefur komið tæknilega flóknu máli í tilfinningahnút, sem ekki er góður í vegarnesti milljarðakerfis. Rúmlega hálfs árs róleg íhugun gæti komið málinu í jafnvægi að nýju.

Þeir, sem fylgjast grannt með íslenzkri lagasmíði, hafa tekið eftir, að meira að segja þau lög, sem virðast einföld, hafa yfirleitt margvísleg hliðaráhrif, sem ekki var gert ráð fyrir, þegar þau voru sett. Oft hafa vond hliðaráhrif yfirgnæft góð meginmarkmið laganna.

Enn meiri líkur eru á, að húsbréf hafi ófyrirséð hliðaráhrif, því að þau eru afar flókið mál. Vandaðri undirbúningur girðir ekki fyrir hliðaráhrif, en dregur úr líkum á, að þau verði svo alvarleg, að betra væri að búa áfram við rústir núverandi kerfis, sem við þekkjum þó.

Að einu leyti eru húsbréfin svo beinlínis grunsamleg. Í málflutningi stuðningsmanna þeirra er óbeint gefið í skyn, að þau framleiði verðmæti úr engu, því að þau spari ríkinu framlög. Að því leyti minna þau á margar fyrri sjónhverfingar, sem ráðherrar hafa notað.

Vandræði húsnæðiskerfisins eru fyrst og fremst þau, að opinbert fjármagn til þess er af skornum skammti. Bezta vopnið í þágu þess er auðvitað að auka fjármagnið. Raunverulegur skortur á fé verður aldrei bættur upp með sjónhverfingum í nýjum bókhaldskerfum.

Skynsamlegt gæti verið að hætta feluleiknum og viðurkenna, að þjóðfélagið neyðist til að gefa ungum Íslendingum byrjunarpeninga í lífsins matador, til dæmis með því að greiða rækilega niður vexti af húsnæðislánum, upp að ákveðnu marki, svo sem raunar verið hefur.

Úr því að ráðherra hefur klúðrað húsbréfunum með of litlum undirbúningi, er heilbrigt, að hann segi af sér eins og hann hefur lofað. Allt of sjaldgæft er hér á landi, að ráðherrar taki sjálfir afleiðingum mistaka sinna og gefi öðrum færi á að reyna að leysa hnútinn.

Húsbréfum ætti ekki að koma á fót með lítt málefnalegum ógnunum og gráti af hálfu ráðherra. Skynsamlegra er að skoða gagnrýnina í friði og ró í sumar.

Jónas Kristjánsson

DV