Valdið, sviðið og listin

Greinar

Sveitarstjórnarmaður hótaði í síðustu viku að taka heitt og kalt vatn, rafmagn, slökkvilið og sorphirðu af nágrannasveitarfélaginu, af því að það sagði upp samningi um hraðbraut á mörkum sveitarfélaganna. Hann virtist ekki sjá neitt athugavert við slíkar hótanir.

Ofbeldishneigð er eitt þriggja persónulegra vandamála, sem hrjá íslenzka stjórnmálamenn um þessar mundir. Hún skýtur víðar upp kollinum en hjá hinum galvaska sveitarstjórnarmanni, sem hefur langan og eftirminnilegan valdshyggjuferil að baki sér.

Einn ráðherrann hótaði í vetur að ofsækja eigið málgagn með ríkishandafli, ef stjórn þess yrði ekki skipuð að hans vilja. Hann hefur verið skamman tíma að völdum, en hefur þegar öðlazt frægð fyrir tilhneigingu til að beita hótunum um misbeitingu ráðherravalds.

Báðum þessum stjórnmálamönnum vegnar vel í flokkum sínum. Annar hefur tekið við stjórn flokks síns og hinn bíður eftir kalli flokksbræðranna, sem hlýtur að koma á hverri stundu. Sauðféð, sem kallar sig kjósendur, er fremur hallt undir sterka menn af þessu tagi.

Þriðji stjórnmálaflokkurinn er undir stjórn ráðherra, sem lítur á pólitískar burtreiðar sem upphaf og endi stjórnmála. Hann nýtur sín bezt í slagsmálum, þótt hann sé alveg laus við ofbeldishneigð hinna tveggja fyrrnefndu starfsbræðra. Lífið er málfundur í hans augum.

Sem ráðherra sinnir hann litlu af embættisskyldum. Hann er á skrifstofu sinni um klukkustund á viku og veit lítið um gang mála í ráðuneytinu. Hann hefur yndi af að setja allt á hvolf með litlum pennastrikum og baða sig síðan í sviðsljósi upphlaupsins, sem fylgir.

Báðir eru þessir ráðherrar afar óvinsælir af starfsliði sínu. Valdshyggjumaðurinn lítur á það eins og hunda og umgengst það sem slíka. Burtreiðamaðurinn lítur á það eins og leiktjöld að baki hins mikla málfundar síns og skákar því til og frá eftir aðstæðum andartaksins.

Skaðsemi burtreiðamannsins er önnur og ekki síðri en skaðsemi valdshyggjumannsins. Innihald mála skiptir hann engu í raun, heldur eingöngu burtreiðarnar sem slíkar. Þess vegna verður hann einkar tækifærissinnaður og lítt traustvekjandi í samstarfi milli flokka.

Þriðji ráðherrann stjórnar einnig sínum flokki. Hans vandamál er í rauninni hættulegra en hinna tveggja, því að það felst í að líta á stjórnmál sem hrein og tær stjórnmál. Hann er alveg laus við valdshyggju og burtreiðafíkn, en hann vill verða töframaður stjórnmálanna.

Hann lítur á sig sem listamann hinna hreinpólitísku viðfangsefna málamiðlunar og björgunar fyrir horn. Hann nýtur þess að vera með alla enda lausa og láta spá stjórn sinni falli, en tefla svo málum í þá stöðu, að ríkisstjórnin lifi áfram til næstu kollsteypu.

Þannig situr hann efst á haugnum, án þess að stjórn hans hafi meirihluta á þingi. Þannig fékk hann þingmenn úr Borgaraflokki til fylgis við fjáröflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar. Og þannig fékk hann Kvennalistann til að fallast á málamiðlun í húsbréfum.

Listamaður þessi lítur á endalausa röð málamiðlana á síðustu stundu sem sönnun þess að hann sjálfur sé færari fulltrúi hinna hreinu og tæru stjórnmála en nokkur annar

Íslendingur. Innihald eða efni mála skiptir hann litlu sem engu í þessu tæra samhengi. Samanlagt eru það valdshyggjumenn, burtreiðamenn og hreinpólitískir listamenn, sem ráða því, að þjóðfélagið er á hraðri gjaldþrotsbraut um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV