Gíslar og stríðsskaðabætur

Greinar

Gíslingu nemenda verkfallskennara er ekki lokið, þótt verkfallsstríðinu sé lokið. Sigurvegararnir fengu nefnilega hjá hinum sigraða stríðsskaðabætur, sem valda því, að heppilegt er fyrir sigurvegarana að halda unglingum í skólum á helzta bjargræðistíma þeirra.

Í uppgjafarsamningnum segir “Aðilar eru sammála um, að nemendur verði hvorki brautskráðir né færðir milli bekkjardeilda eða áfanga án námsmats frá kennurum. Nánari ákvarðanir um skólalok verði teknar í fullu samráði við kennara í hverjum skóla …”.

Sigurformaðurinn fylgdi þessu eftir í blaðaviðtali, þar sem hann sagði, að kennarar ætluðu “ekki að stuðla að gervilausnum, með því að gefin yrðu út verðlaus prófskírteini”. Síðar í viðtalinu sagði hann: “Nemendur lifa það af að lenda í svolitlum hrakningum”.

Formaðurinn tók sérstaklega fram í viðtalinu, að kennarar vissu betur en nemendur, hvað væri hinum síðarnefndu “fyrir beztu”. Ennfremur gaf hann út allsherjarvottorð um andlegt eða sálrænt ástand skólastjóra og sagði, að þeir væru “taugaveiklaðir menn”.

“Ég held, að það hjálpi okkur ekki mikið nú, þegar við förum aftur inn í skólana, að vera að fara að vinna með taugaveikluðum mönnum, sem fundu ekki hjá sér neina þörf til þess að styðja okkur”, sagði formaður sigurvegaranna í viðtalinu um skólastjóra landsins.

Benti formaðurinn á, að nú mundi skólastjórum hefnast fyrir að vilja ekki greiða “framlög í verkfallssjóð” kennara. Þessi grimmd er alkunnug úr sagnfræði styrjalda. Þegar sigurvegarar líta yfir rústir styrjalda, er þeim gjarnt að refsa ýmiss konar stríðsglæpamönnum.

Samanlagt má af ofangreindum tilvitnunum ráða, að enn sé blóðbragð í munni sigurvegara. Því má á næstu árum búast við frekari verkföllum kennara með gamalkunnum gíslatökum. Þegar sigurvegarar eru komnir á bragðið, stanza þeir ekki fyrr en þeir eru stöðvaðir.

Í fyrsta sinn í sögu vinnudeilna hér á landi hefur sigur annars aðilans orðið svo alger, að hinn aðilinn hefur orðið að greiða það, sem samningamenn kölluðu sín á milli réttilega “stríðsskaðabætur”. Það eru ýmsar greiðslur, sem bæta kennurum launatap í verkfallinu.

Auk launahækkana, sem samið var um í stríðslok, fá sigurvegararnir ýmsar upphæðir, svo sem laun fyrir vinnu í verkfalli, verkfallsbætur, hækkun um launaflokk, tvöföld laun við áframhaldandi gíslahald í skólum í sumar og svo afturvirkni í sumum upphæðum.

Athyglisverðastar eru stríðsskaðabæturnar, sem hljóta að verða ofarlega á baugi í samningaþrefi annarra, sem síðar þurfa að fá hærra kaup. Með samkomulagi um stríðsskaðabætur hefur verið opnuð töfrakista, sem getur leitt til langvinnra verkfalla í framtíðinni.

Ef samningamenn hafa fordæmi fyrir, að unnt sé að ná samkomulagi um stríðsskaðabætur, hverfur mikið af varfærninni, sem áður var tengd verkföllum. Menn steypa umbjóðendum sínum hiklaust út í löng verkföll, ef þeir vona að geta síðan samið um verkfallsbætur.

Þetta er niðurstaða af landsfrægri ráðsnilld forsætisráðherra, sem er manna vinsælastur hér á landi. Hann kom til skjalanna í stríðslok og leysti hnútinn, auðvitað með hinum alkunna hætti sínum að búa til enn verri hnút handa öðrum til að leysa í framtíðinni.

Einna verst er þó, að málið var meðal annars leyst með því að minnka sumartekjur nemenda. Þeir eru ekki allir svo heppnir að vera í Verzlunarskólanum.

Jónas Kristjánsson

DV