Nú skulum við undirbúa starfslok áliðnaðar á Íslandi. Ómaginn á þjóðinni borgar ekki skatta og varla kostnaðarverð fyrir orku, en enga auðlindarentu. Þeim tíma sé lokið. Framvegis verði orka seld á markaðsvirði. Þá muni aðrir bjóða betur en álbræðslur. Og eru síður líklegir til að svindla með skapandi bókhaldi á borð við hækkun í hafi. Helzt er það tölvuiðnaður og hátækni, sem geta leyst frumvinnslu álbræðslu af hólmi. Til þess þarf ekki fleiri orkuver, bara selja orkuna dýrar. Hugmyndir um ný álver í kjördæmapoti eru pólitískt rugl. Álið er draugur ljótrar fortíðar og framtíðin liggur í hreinleika og náttúrufegurð.