Seint læra sumir

Greinar

Íslenzkir stjórnmálamenn í valdastóli ætla seint að sætta sig við, að Ríkisendurskoðun er flutt undan handarjaðri ráðherravalds og komin til Alþingis, þar sem kúgunin er ekki eins mikil. Þeir hafa brugðizt ókvæða við ýmsum niðurstöðum Ríkisendurskoðunar.

Dæmigerð eru svör fjármálaráðherra við athugsemd Ríkisendurskoðunar um, að hann hefði ekki átt að gefa gæludýrum eftir opinber gjöld. Hann sagði, að núverandi vara-ríkisendurskoðandi hefði unnið í fjármálaráðuneytinu, þegar eftirgjöfin var framkvæmd!

Alkunnugt er, að slagsmálaaðferðir fjármálaráðherra eru á lægra plani en gengur og gerist í stjórnmálum landsins. Miðað við það er samt nokkuð langt til seilzt að svara því einu, að tiltekinn starfsmaður á einum stað í kerfinu hafi áður verið starfsmaður á öðrum stað.

Forsætisráðherra hefur misst út úr sér fýluleg viðbrögð út af athugasemdum Ríkisendurskoðunar um stórfelldan fjárdrátt í reglugerð frá landbúnaðarráðuneytinu. Hann tók sérstaklega fram, að stofnunin væri ekki dómstóll, sem er auðvitað rétt hjá honum.

Síðan sagði hann, að flokksbróðir sinn, þáverandi landbúnaðarráðherra, hefði ætlað að framkvæma búvörukaupasamning ríkisins við landbúnaðinn á þann hátt, að “það valdi sem minnstri byggðaröskun og að það komi líka sem léttast niður á bændum sjálfum”.

Forsætisráðherra hafði ekkert orð aflögu til að taka undir, að ekki sé eðlilegt, að gjafmildur landbúnaðarráðherra gefi út reglugerð, sem kosti ríkissjóð heilan milljarð króna umfram það, sem lög gera ráð fyrir. Hann lætur sig engu varða um, hvað lögin segja.

Sú venja hefur verið að mótast í framkvæmdavaldinu, að ráðherrar taka lítið mark á lögum, sem sett eru á Alþingi, þar á meðal fjárlögum. Þeir verja peningum eins og þeim og fjármálaráðherra sýnist og kalla fjárdráttinn hinu virðulega nafni “aukafjárveitingar”.

Vonandi leiðir samt hin nýja aðstaða Ríkisendurskoðunar til, að fjárglæfrar ráðherra fari ört minnkandi. Það fer mikið eftir dugnaði og samvizku fjárveitinganefndar Alþingis, sem hefur núna fulltrúa frá Ríkisendurskoðun á fundum sínum til aðstoðar við að kafa ofan í mál.

Ríkisendurskoðandi hefur sjálfur sagt, að alvarlegasti áfellisdómur stofnunar hans hafi komið fram í skýrslunni um meðferð landbúnaðarráðuneytisins á búvörusamningnum. Þar er líka sagt, að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafi farið út fyrir verksvið sitt.

Framleiðnisjóði er ætlað að auka framleiðni í landbúnaði. Peningar hans hafa hins vegar verið notaðir til að vernda hefðbundnar búgreinar og til að leysa rekstrarvanda í loðdýrarækt. Ennfremur hefur sjóðurinn skuldbundið sig til lengri tíma en lög heimila. En

Ríkisendurskoðun hefur tekið til hendinni á fleiri sviðum, bæði að tilhlutan alþingismanna og að eigin frumkvæði. Hún hefur upplýst, að fjármálaráðherra hefur marglogið um upphæð gjafarinnar til eins af útgáfufélögum dagblaðsins Tímans, sem þá hét NT.

Útgefendur blaðsins hafa þegið 8,5 milljónir að gjöf frá skattgreiðendum. Annað útgáfufyrirtæki er einnig í náðinni hjá umboðsmanni skattgreiðenda. Svart á hvítu hefur selt ríkinu skuldabréf fyrir 23 milljónir króna, með óljósum tryggingum, sennilega verðlausum.

Kominn er tími til, að ráðherrar hætti að svara athugasemdum Ríkisendurskoðunar með skætingi og hætti um leið að misnota fé almennings á ólöglegan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV