Voldugast í veröldinni

Greinar

Hvort tveggja er, að umboðsmaðurinn er einstæður í sinni röð og að umbjóðandinn er voldugasta afl veraldar um þessar mundir. Vegna þessa er heimsókn Jóhannesar Páls páfa til Íslands mikilvægur og nánast einstæður viðburður í þúsund ára kristnisögu þjóðarinnar.

Til skamms tíma atti kaþólska kappi við kommúnisma um hugi og hjörtu heimsbyggðarinnar. Eftir siðferðishrun hinnar veraldlegu trúar kommúnismans stendur kirkjan í Róm með pálmann í höndunum. Hún situr nú ein á tindi með voldugustu lífsskoðun heims.

Enn síður en margvísleg félagshyggja og skipulagshyggja getur fríhyggja og frjálshyggja af ýmsu tagi keppt við kaþólsku um hugi fólks. Allt eru þetta voldugar lífsskoðanir, en engin eins og kaþólska. Og aðrar kirkjudeildir kristninnar vafstra minna í stjórnmálum.

Athyglisvert er, að það eru önnur trúarbrögð annars heims, sem ganga næst kaþólsku í valdi yfir fólki. Það er íslam, sem hefur í vaxandi mæli látið til sín taka á síðustu árum. Arftakar Múhameðs spámanns sækja raunar fram af meira krafti en eftirmenn Sankti-Péturs.

Kaþólsk kirkja var enn voldugri á miðöldum Evrópu. Með nýöld varð hún að láta undan síga fyrir nýjum hugsjónum og hugmyndum, bæði trúarlegum og veraldlegum. Sérstaklega átti kirkjan í Róm erfitt með að finna svör við vísindahyggju og fríhyggju allra síðustu alda.

Í farsældarþjófélagi Vesturlanda er veraldarhyggja af fjölbreyttu tagi öflugt mótvægi við kirkjuna, þar sem kaþólska er í fylkingarbrjósti. Fríhyggjan gerir eins og kaþólskan kröfur til að vera talinn hornsteinn þess andlega umhverfis, sem við köllum vestræna menningu.

Í þessu vestræna samhengi virðist kaþólska oft vera fulltrúi afturhaldsins. Kirkjan í Róm er á móti kvenprestum og fóstureyðingum. Hún hefur hert andstöðu sína við villutrúarkenningar á jaðri kaþólsku. Jóhannes Páll er að þessu leyti afturhaldssamur páfi.

Kredduharkan nú á tímum er þó ekki að neinu leyti sambærileg við fyrri ofbeldishneigð kaþólskunnar. Ferill hennar er blóðugri en ferill annarra afla í Evrópu, enda margfalt langvinnari en ferill nasisma og kommúnisma, svo að nýleg dæmi séu tekin til samanburðar.

Nokkuð virðist skorta á, að kirkjan í Róm telji sér skylt að gera upp sakirnar við eigin fortíð, sem var hroðaleg á köflum. Þetta er að vísu löngu liðin saga, en hvílir þó eins og mara á öllu sagnfræðilegu mati á stöðu kaþólskunnar í nútímaheimi frjálsrar hugsunar.

Fyrst og fremst er það utan Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, að kaþólsk kirkja kemur fram sem fulltrúi framtíðarvona. Það er líka einmitt í þriðja heiminum og í Austur-Evrópu, að framsókn Rómarsiðar er mest um þessar mundir, sumpart vegna Jóhannesar Páls páfa.

Arftaki Péturs hefur rofið innilokun páfa í görðum Vatíkansins. Hann fer um þriðja heiminn eins og hvirfilbylur og safnar hvarvetna að sér ótrúlegum mannfjölda. Í predikunum hans tekur hann oft málstað hinna snauðu gegn kvölurunum, sem stjórna þriðja heiminum.

Hann hefur einnig verið tíður gestur í föðurlandi sínu, Póllandi, þar sem almenningur lítur nú orðið á kaþólsku kirkjuna sem helzta hornstein lífs síns. Þar í landi er einna sýnilegastur hinn algeri og endanlegi ósigur, sem kommúnisminn hefur beðið fyrir kaþólskunni.

Okkur þótti mikils um vert, er leiðtogar heimsveldanna sóttu Ísland heim. Enn merkara ætti okkur að þykja að fá að gesti voldugasta mann veraldarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV