Brennivínsráðherrar

Greinar

Brennivínsmál ráðherranna snýst ekki um, hvort forsætisráðherra megi eða megi ekki taka notalega á móti erlendum gestum ríkisins á sínu eigin heimili. Flestir geta verið sammála um, að ríkið greiði kostnað af slíku veizluhaldi, þar á meðal af vínföngum.

Brennivínsmálið snýst hins vegar um, að úttekt ríkisins á ódýru áfengi hefur skyndilega lækkað um nærri helming, síðan mál forseta Hæstaréttar komst í fjölmiðla. Það þýðir einfaldlega, að fyrir þessa minnkun fór helmingur úttektar ríkisins til einkanota.

Þeir, sem aðstöðu hafa til að nota ríkisáfengi til einkanota, hafa verið hræddir um sig að undanförnu. Þess vegna hefur úttekt ríkisins hjá áfengisverzlun sinni frá desember 1988 til apríl 1989 aðeins numið 6.000 flöskum í stað 11.000, sem verið hefði venju samkvæmt.

Nú er kjörið að nota tækifærið til að skera milli einkanota og flokksnota annars vegar og ríkisnota hins vegar. Setja þarf á blað nákvæmar reglur um, hvernig eigi að fara með risnu á vegum ríkisins, svo að enginn þurfi að láta freistast til óheiðarleika á þessu sviði.

Ennfremur er brýnt, að hið opinbera haldi gott bókhald yfir risnu, svo að stjórnmálamenn og embættismenn komi ekki fyrir rétt eins og álfar út úr hól og þykist hafa gleymt hinu og þessu. Bókfært þarf að vera, hve mikil risna er notuð í hverju nafngreindu tilviki.

Ástæða er til að ítreka, að almenningsálitið sættir sig ekki við, að risna á vegum ríkisins sé notuð í stað risnu á vegum stjórnmálaflokka eða einstaklinga. Til dæmis eiga ráðherrar ekki að halda ríkisboð fyrir flokksbræður sína, skólabræður, ættingja eða sjálfa sig.

Athyglisverður er þagnarmúrinn, sem ráðherrar og embættismenn hafa slegið umhverfis risnu sína. Þeir koma meira að segja fyrir Borgardóm og segja frá málum á þann hátt, að það gefur villandi mynd af sukkinu. Og hörmulegt er að sjá, hversu lágt þeir leggjast.

Á sama tíma hafa lekið úr ráðuneytunum skjöl, sem rjúfa örlitla glufu á ósannindamúrinn, sem sleginn hefur verið um áfengiskaup og aðra risnu ríkisins. Þessi gögn bera með sér, að ráðherrar og embættismenn hafa farið með rangt eða ruglað mál fyrir Borgardómi.

Hin dapurlega staðreynd er, að sumir ráðherrar og embættismenn hafa hagað sér eins og þeim þóknast í þessum efnum. Þeir hafa bara skipað fyrir og siðameistararnir hafa bukkað sig og flýtt sér að hlýða. Þannig hefur risnusukkið hlaðið utan á sig með árunum.

Áfengisflutningur til heimahúsa eða til afmælisveizlusala úti í bæ er ekki nema hluti af vandanum. Veizlusalir hins opinbera og aðrir veitingasalir hafa einnig verið misnotaðir. “Af hverju athugið þið það ekki”, sagði aðþrengdur forsætisráðherra í blaðaviðtali.

Aðþrengdur utanríkisráðherra fjallaði um risnu sína í yfirlýsingu og sagði meðal annars um gestamóttökur: “…er á einskis manns færi að leggja þær á minnið”. Hann skýtur sér beinlínis á bak við, að bókhald yfir risnu er í ólagi hjá embættismönnum hins opinbera.

Unnt er að koma í veg fyrir að brennivínsnotkun forsætisráðherra, utanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og annarra valdamanna sé höfð að háði og spotti úti í samfélaginu. Það gerist með því að móta skrifaðar reglur og gott bókhald um, að þeim sé alltaf fylgt.

Með því getur ríkið um leið byrjað að gefa fordæmi um, að almennt skuli í þjóðfélaginu farið varlega og siðsamlega með annarra manna fé og sameiginlegt fé.

Jónas Kristjánsson

DV