Fakír lyft á Lækjartorgi

Greinar

Íslendingar leiða ekki stjórnmálaskoðanir sínar til eðlilegrar niðurstöðu. Við látum okkur nægja að vera óánægð með ríkisstjórnir, en breytum ekki að ráði venjum okkar, þegar á kjörstað er komið. Þá kjósum við yfir okkur meira af bölinu, sem við hneykslumst á.

Í skoðanakönnun DV, sem birtist í gær, kom fram, að fylgi við ríkisstjórnina hefur haldið áfram að hrynja, í þetta sinn úr þriðjungi kjósenda niður í fjórðung þeirra. Þrír fjórðu hlutar þeirra, sem skoðun hafa, eru andvígir ríkisstjórninni. Það er hreint og klárt Íslandsmet.

Hinir sömu spurðu eru samt ekki allir ákveðnir í að snúa baki við flokkunum, sem standa að ríkisstjórninni. Samkvæmt könnuninni fengi Framsóknarflokkur inn 13 þingmenn, ef kosið væri núna, og Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið fengju 5 þingmenn hvor.

Þetta eru að vísu mun færri þingmenn en flokkarnir hafa núna og ekki samtals nema 23 af þeim 33, sem þyrfti til að ná aftur meirihluta á Alþingi. En þetta eru samt 23 þingmenn og þar af 13 af hálfu Framsóknar flokksins, sem hefur ráðið ríkjum í tvo áratugi.

Ef við bætum við þessar upplýsingar niðurstöðum úr sömu könnun um álit einstakra stjórnmálamanna, sem birtist í DV í dag, má sjá, að enn nýtur forsætisráðherra mests álits. Það er að vísu ekki hlutfallslega hátt, 16,3%, og fer minnkandi, en er þó meira en annarra.

Forsætisráðherra afrekaði fyrir viku að taka í þjónustu sína mann, sem sjónvarpið kallar “andlegan leiðtoga”, er stjórni bænasamkomum á vegum Sameinuðu þjóðanna í aðalstöðvum þeirra. Lét ráðherrann þennan athafnasama heiðursmann lyfta sér á Lækjartorgi.

Forsætisráðherra stóð eins og fakír í turni á torginu og hélt á kyndli friðar, þegar “andlegi leiðtoginn” lyfti honum, fyrstum allra forsætisráðherra heims. Hann hefði átt að halda á fjárlögunum og þjóðhagsáætluninni í voninni um, að þær bókmenntir mættu lyftast með sér.

Næsta skref gæti orðið, að hin óvinsæla fakírastjórn Íslands réði hinn “andlega leiðtoga” til að stjórna bænasamkomum ríkisstjórnarinnar og koma í stað ráðgjafanna, sem nú veita ríkisstjórninni skaðleg ráð um meðferð efnahags- og fjármála. Ráðin versna varla við það.

Aðferðir forsætisráðherra njóta vaxandi vinsælda meðal ráðherranna, sem reyna að taka hann sér til fyrirmyndar. Fjármálaráðherra man ekki í dag, að hann sagði í gær, að kjarasamningar, er hann gerði, væru innan ramma fjárlaga, og segir fjárlögin vera sprungin.

Innan skamms má búast við, að ráðherrar hætti alveg að muna, hvað gerðist í gær. Þeir munu þá koma í sína daglegu fréttastund í sjónvarpi og lýsa yfir, að þeir hafi verið “plataðir” eða að þeir séu “alveg rasandi” út af hinu og þessu, sem er í ólestri hjá þeim sjálfum.

Því fleira sem hrynur í efnahagslífinu, þeim mun meira hissa verða ráðherrarnir. Forsætisráðherra ávítar ráðamenn fyrirtækja, alveg eins og hann sé nýkominn úr langri vist í öðru sólkerfi. Öll byggist þessi framganga á rólegu og botnlausu sjálfstrausti fakírsins.

Þjóðin sér, að athafnir ríkisstjórnarinnar eru skaðlegar. Hún sér, að fjáraustur ríkisstjórnarinnar leiðir ekki til bættra lífskjara, heldur er það fjármunabrennsla af versta tagi. Hún sér, að þetta er verri ríkisstjórn en nokkur, sem setið hefur við völd í þessu landi.

En hún dregur ekki þá eðlilegu ályktun, að hætta beri að styðja flokka, er standa að slíkum stjórnum, eða að hætta beri að hafa álit á fakírum í ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson

DV