Peronismi á Íslandi

Greinar

Argentínumenn voru taldir eiga blómlega framtíð upp úr síðari heimsstyrjöldinni. Talað var þá um, að landið væri önnur Bandaríkin í syðri enda álfunnar. Meira að segja var reiknað út, hvenær þjóðarauður Argentínu færi fram úr þjóðarauð Bandaríkjanna.

Nú er hins vegar Argentína svo algerlega gjaldþrota, að ekki er unnt að sjá neina leið úr vandanum. Erlendar skuldir eru svo miklar, að ekki er unnt að standa undir vöxtunum. Óeirðir eru á götum Buenos Aires, af því að hin áður auðuga þjóð á ekki fyrir brauði.

Argentínumenn misstu af lestinni, þegar þjóðir Vesturlanda unnu sér inn fyrir efnahagsundri síðustu fimm áratuga. Þeir fóru út á villigötur, sem voru svo afdrifaríkar, að ekki virðist vera unnt að snúa við af þeim. Enda hafa þeir núna valið sér fakír að forseta.

Upphafs vandræðanna var að leita hjá Juan Peron. Hann var lýðskrumari, sem lengi var við völd í Argentínu. Hann tók ekkert mark á hagrænu viti. Meðan önnur ríki juku frelsi í efnahagsmálum í samræmi við ríkjandi kenningar í hagfræði, jók hann miðstýringu.

Ef Peron líkaði ekki, hversu háir vextir voru í landinu, lækkaði hann þá með handafli. Ef honum líkaði ekki, að bændur kæmu ekki út búvöru sinni, greiddi hann vöruna niður með handafli. Ef honum líkaði ekki að byggð færi í eyði, hélt hann henni uppi með handafli.

Þegar Peron var búinn að gera Argentínumenn gjaldþrota í fyrra skiptið, tók herinn við. Hann átti mjög auðvelt með að setja sig inn í miðstýrða kerfið, fjölgaði ríkisfyrirtækjum og setti hvarvetna herforingja í forstjórastóla hjá ríkinu. Vitleysan jókst og magnaðist.

Það lenti svo á á Raúl Alfonsín, lýðræðislega kjörnum forseta, að taka við þrotabúi hersins. Honum tókst ekki að koma efnahagnum á kjöl aftur og galt fyrir það með ósigri flokksins í forsetakosningum í síðasta mánuði. Peronistar komust aftur til valda á nýju lýðskrumi.

Carlos Menem, arftaki Perons, hefur lofað Argentínumönnum gulli og grænum skógum. Þeir virðast hafa verið reiðubúnir að trúa því, þrátt fyrir fyrri kynni af fakírum af hans tagi. Þeir veittu Menem í kosningum eindregið brautargengi til að framkvæma kraftaverk.

Peronisminn í Argentínu minnir mjög á stefnu Framsóknarflokksins og raunar annarra stjórnmálaflokka á Íslandi. Það er heimatilbúin stefna, sem stangast á við alþjóðleg efnahagslögmál. Á báðum stöðum er henni talið til gildis, að hún sé miðuð við aðstæður.

Samkvæmt þessari stefnu eiga aðrar þjóðir að kaupa vörur okkar, helzt án þess að tolla þær. Við eigum hins vegar að banna innflutning afurða annarra þjóða, ef sá innflutningur keppir við innlenda framleiðslu. Auðvitað gengur þetta ekki upp, en það gengur í kjósendur.

Samkvæmt þessari stefnu hafa stjórnvöld það hlutverk að leysa öll vandamál, sem upp koma úti í bæ. Þau eiga að hindra, að byggð fari í eyði, að loðdýrabú verði gjaldþrota, að vextir hækki hjá Sambandinu, að búvara seljist ekki. Úr þessu verður þunglamaleg miðstýring.

Hvorki Menem í Argentínu né Steingrímur á Íslandi hafa nógu miklar upplýsingar til að geta miðstýrt öllu þjóðfélaginu af viti. Slíkt getur enginn, þótt hann sé að burðast við að reyna það. Framfarir Vesturlanda byggjast einmitt á að forðast handafl af þessu tagi.

Argentínumenn eru langt komnir í vítahringnum. En við höfum líka runnið inn í hann með stuðningi við flokka, er bjóða heimatilbúið lýðskrum miðstýringar.

Jónas Kristjánsson

DV