Sauðféð étur gjaldeyri

Greinar

Enn einu sinni hefur DV reiknað út herkostnað þjóðarinnar af hefðbundnum landbúnaði. Niðurstaðan er í stórum dráttum hin sama og venjulega, nema hvað tölurnar hækka eftir því sem verðgildi krónunnar minnkar. Að raungildi er peningabrennslan óbreytt og árviss.

Blaðið birti tölur reikningsdæma landbúnaðarins í gær og í fyrradag. Í stórum dráttum segja þær, að neytendur greiða á þessu ári 10,5 milljarða í herkostnað landbúnaðarins og skattgreiðendur borga 4,3 milljarða að auki til að halda úti hinni þjóðlegu atvinnugrein.

Þessar tölur koma ekki á óvart. Þær hafa að vísu þann galla að vera svo háar, að almenningur lítur á þær sem tiltölulega kalt bókhaldsatriði. Fólki yrði ekki minna gramt í geði, þótt tölurnar væru aðeins helmingur eða fjórðungur af því, sem dæmið leiðir í ljós.

Ef tölurnar eru reiknaðar á mann, kemur í ljós, að herkostnaður venjulegrar fjögurra manna fjölskyldu af hefðbundnum landbúnaði nemur rúmlega fjórtán þúsund krónum á mánuði í heimiliskostnaði og tæplega sex þúsund krónum á mánuði í skattakostnaði.

Það hlýtur að skipta hverja þessara fjölskyldna máli að borga samanlagt yfir 20.000 krónum meira en ella í herkostnað þjóðarinnar af landbúnaði. Til að eiga fyrir þessu eftir skatta, þarf um 30.000 krónur á mánuði. Í sérhverju heimilisbókhaldi er það rosaleg upphæð.

En ýmissa hluta vegna gera menn sér meiri rellu út af öðrum hlutum, svo sem hvort þeir fái 2.000 króna eða 5.000 króna hækkun á mánuði, jafnvel þótt allir viti í rauninni, að það er hækkun, sem verður tekin til baka á morgun með hækkuðu verði á vöru og þjónustu.

Í rauninni byggjast öll meiriháttar vandræði Íslendinga í fjármálum og efnahagsmálum á herkostnaðinum við landbúnað. Hann er grundvöllur skuldasöfnunar þjóðarinnar í útlöndum og hinum gífurlega mikla gjaldeyri, sem þarf til að reka allar þær skuldir.

Jafnvel þótt ekki sé munað eftir gjaldeyriskostnaðinum af því að taka lán í útlöndum í stað þess að hætta afskiptum hins opinbera af hefðbundnum landbúnaði, er þar fyrir utan fólginn verulegur gjaldeyriskostnaður í að neita þjóðinni um ódýran mat frá útlöndum.

Samkvæmt áðurnefndum útreikningum mundi kosta okkur 2,1 milljarð króna í gjaldeyri á þessu ári að kaupa alla búvöru að utan, ef við kysum að fara þá leið. Á móti mundu sparast öll aðföng hins hefðbundna landbúnaðar í erlendum gjaldeyri, alls 1,6 milljarðar.

Á þessu munar ekki nema hálfum milljarði. Þá er eftir að gera ráð fyrir þeim möguleika, að finna megi arðbær verkefni handa fólki, sem nú starfar við hefðbundinn landbúnað. Meðalstarf á Íslandi aflar gjaldeyris, eða sparar hann, upp á 880 þúsund krónur á ári.

Um þessar tölur getur ekki orðið neinn efnislegur ágreiningur, því að þær verða ekki hraktar í neinum umtalsverðum atriðum. Þær eru í rauninni ekki nýjar, því að öðru hverju hafa þær verið reiknaðar út allan síðastliðinn aldarfjórðung og sýna jafnan hið sama.

Íslendingar ættu að hætta að væla um, hversu erfitt sé að lifa, af því að mjólkin sé svo dýr og benzín svo rándýrt. Miklu nær er að drífa í að losna af þingi við stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn, sem standa að baki peningabrennslunnar í hefðbundnum landbúnaði.

Málið er ekki flókið. Krafan er, að ríkið hætti fjárhagslegum afskiptum af hefðbundnum landbúnaði og leyfi frjálsa verzlun með innlenda og erlenda búvöru.

Jónas Kristjánsson

DV