Ein undantekning

Greinar

Í nýlegum skoðanakönnunum þriggja aðila um viðhorf fólks til stjórnmála kom fram nokkurt misræmi, einkum í niðurstöðunum um fylgi Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir. Misræmið hefur að sjálfsögðu leitt til hugleiðinga um, hvort sé að marka slíkar kannanir.

Um langt skeið hafa þessir þrír aðilar og raunar fleiri kannað skoðanir fólks á stjórnmálum. Niðurstöðum mismunandi kannana hinna ólíku aðila um fylgi stjórnmálaflokka á svipuðum tíma hefur yfirleitt borið nokkuð vel saman, þangað til í þetta eina og fyrsta skipti.

Ekki er ástæða til að hlaupa upp til handa og fóta, þótt misræmi komi í ljós einu sinni eða nokkrum sinnum. Miklu frekar er ástæða til að minnast þess, að hingað til hefur könnunum yfirleitt borið vel saman, jafnvel þótt þær séu framkvæmdar á misjafnan hátt.

George Gallup hefur bezt manna svarað, hvort að marka sé skoðanakannanir. Hann sagði, að bezti mælikvarðinn á skoðanakönnunum sé, hvort saman ber síðustu könnun fyrir kosningar og kosningaúrslitunum sjálfum. Það er hæstaréttardómur reynslunnar.

Við á DV höfum löngum státað af, að síðustu kannanir okkar fyrir kosningar hafa staðizt þennan hæstaréttardóm bezt. Aðrir aðilar hafa líka staðizt hæstaréttardóm reynslunnar, þótt þeir hafi ekki að jafnaði farið eins nálægt úrslitunum og DV hefur tekizt.

Í umræðum síðustu daga um gildi skoðanakannana hefur oftar en einu sinni verið hampað hugmyndum, sem við fyrstu sín virðast eðlilegar, en standast ekki skoðun reynslunnar. Gildi skoðanakönnunar fer til dæmis lítið eftir stærð úrtaks, þótt sumir haldi það.

DV hefur verið með tvær tegundir úrtaks, 600 manna og 1200 manna. Dómur reynslunnar sýnir ekki umtals verðan mun á nákvæmninni. Enda er munurinn fremur lítill, ef hann er reiknaður á stærðfræðilegan hátt, svo lítill, að vafamál er, að stærra úrtakið borgi sig.

Einnig er röng hin útbreidda skoðun, að könnun úr þjóðskrá sé betri en könnun úr símaskrá. Hvort tveggja á sér fræðilegar forsendur, sína kosti og sína galla. Við á DV höfum af áratuga reynslu komizt að raun um, að símakannanir standast dóm reynslunnar afar vel.

Munurinn á könnunum DV og Skáíss annars vegar og Félagsvísindastofnunar hins vegar er meðal annars fólginn í, að hinar fyrrnefndu eru símakannanir og hin síðarnefnda þjóðskrárkönnun. Það kann að skýra misræmið í niðurstöðum, en skýrir þá ekki fyrra samræmi.

Hinn munur þessara kannana er, að Félagsvísindastofnun reynir að ná upp skoðun hjá fólki, sem litla eða enga skoðun hefur. Þetta er gert til að fækka hinum óákveðnu. Hvort rétt er að fækka þeim þannig er fræðilega séð vafasamt eða að minnsta kosti umdeilanlegt.

Við á DV höfum farið að ráði þeirra, sem telja það valda skekkju að beita mikilli aðgangshörku við að draga meintar skoðanir upp úr fólki, sem hefur á miðju kjörtímabili ekki hugsað út í, hvaða flokk það mundi kjósa, ef sú staða kæmi upp fyrirvaralaust.

Félagsvísindastofnun telur, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi minna fylgi meðal hinna óákveðnu en hinna ákveðnu og því verði að grafast fyrir um skoðun hinna óákveðnu. Við á DV höfum líka reynt að skekkjumæla slík atriði, en ekki fengið nothæfa niðurstöðu.

Mikilvægast er, að ýmsar leiðir eru færar í aðferðum við kannanir og að þær hafa oftast sýnt svipaða útkomu, þótt nú hafi orðið á því ein undantekning.

Jónas Kristjánsson

DV