Myrkrið kúgar miðlunina

Greinar

Kommúnistar í Kína eru nú að gera það, sem kommúnistum hefur alltaf tekizt betur en öðrum, að drepa fólk og segja, að svart sé hvítt. Í þessu felst munurinn á hörmungunum, sem kommúnistar hafa leitt yfir heiminn, og hörmungum af völdum annarra glæpaflokka.

Í meirihluta ríkja heims á fólk bágt af völdum þeirra, sem stjórna, einkum í þriðja heiminum. En harðstjórar þriðja heimsins skirrast flestir við að aka skriðdrekum yfir landsmenn sína. Og þeir guggna yfirleitt á að halda til streitu, að svart sé hvítt og hvítt sé svart.

Kínverskir ráðamenn láta sér hins vegar ekki nein tilfinninga- eða samvizkumál koma nærri, þegar um völdin í landinu er að tefla. Deng Xiaoping hefur enn einu sinni minnt okkur á, hversu fallvalt er að trúa á friðsamlega sambúð með hvers kyns kommúnisma.

Okkur er hollt að minnast þess, að í nokkur ár tók Deng Xiaoping upp á að brosa við umheiminum. Hann gabbaði Bandaríkjamenn upp úr skónum, fékk George Bush í heimsókn og reisti með þeim hlerunarstöð í Kína til að fylgjast með gangi mála í Sovétríkjunum.

Auðvitað plataði hann líka Steingrím Hermannsson og ótal iðjuhölda og kaupsýslumenn, sem ætluðu að græða peninga á hinum risastóra markaði í Kína. Vesturlandamenn neituðu einfaldlega að skilja, að viðhlæjendur þeirra í Kína voru erfingjar Hitlers og Stalíns.

Nú eru menn á Vesturlöndum reiðubúnir að trúa, að þróun í átt til lýðræðis í Sovétríkjunum og sumum ríkjum Austur-Evrópu sé að þessu sinni ekki afturkallanleg á sama hátt og vorið í Kína árið 1989, vorið í Póllandi 1981, Tékkóslóvakíu 1968 og Ungverjalandi 1954.

Annars vegar virðist trúgirni fólks lítil takmörk sett, þegar glæpamenn taka upp á að brosa framan í heiminn. Hins vegar virðist sagnfræðilegu minni fólks vera mikil takmörk sett, jafnvel þótt fjölmiðlar séu fullir af tilvísunum til reynslunnar af fyrri atburðum.

Helzta vonin er, að upplýsingabyltingin hafi náð svo langt, að ekki sé unnt til lengdar að haga sér eins og kínversku ráðamennirnir umhverfis Deng Xiaoping. Ekki sé lengur unnt að neita, að ákveðnir hryllingsatburðir hafi gerzt, þegar sönnunargögnin eru til.

Kínverska stjórnin gat ekki slitið símasambandi við umheiminn, svo að ljósmyndir og myndbönd af atburðunum dreifðust um allan heim. Hún kunni ekki að trufla erlendar útvarpsstöðvar, sem sögðu frá glæpa verkum hennar. Hún gat ekki gert öll faxtæki upptæk.

Kínverjar hafa verið duglegir við að nota tækni nútímans til að dreifa um landið upplýsingum um hernaðaraðgerðir stjórnvalda gegn íbúum landsins. Einna áhrifaríkast hefur verið að senda ljósmyndir og blaðaúrklippur á símafaxi og texta um síma og tölvumótöld.

Kínverskir ráðamenn voru búnir að hleypa upplýsingatækninni af stað inn í landið. Þeir voru ekki eins forsjálir og hinn geðveiki Ceaucescu í Rúmeníu, sem lætur fylgjast með, að ritvélar í landinu séu ekki fleiri en hann telur nauðsynlegt og að þær séu allar skráðar.

Greinilegt er, að miðlunartækni nútímans, mótöld og tölvur, myndbandatæki og ljósritunarvélar, sími og fax, veldur hryðjuverkastjórnum auknum erfiðleikum við að myrkva upplýsingamiðlun með ríkis- og flokksreknum dagblöðum og útvarps- og sjónvarpsstöðvum.

Þetta hefur samt ekki hindrað, að morð og lygi á vegum kommúnistaflokksins ráða núna ferðinni í Kína, svo sem gerst hefur víðar í heiminum á þessari öld.

Jónas Kristjánsson

DV