Verndun dýrra matvæla

Greinar

Varaforseti Alþýðusambandsins tók efnislega afstöðu, þegar hann var spurður álits hér í blaðinu á sölu ódýrra landbúnaðarafurða frá útlöndum. Í svarinu fjallaði hann um hagsmuni umbjóðenda sinna af lækkun matvælakostnaðar í landinu frá því sem nú er.

Formaður bandalags opinberra starfsmanna flutti hins vegar þjóðhátíðarræðu í stað svars. Efnislega jafngilti ræða hans þessu: Landbúnaðurinn má áfram vera stikkfrí gagnvart mínu fólki, enda er ég manna þjóðlegastur og vil ekki borða útlent hormónakjöt.

Athyglisvert er, að hin þjóðlega fæða, sem umbjóðendur formannsins telja sig raunar ekki hafa efni á að kaupa, fær ekki gæðastimpil í útlöndum. Eftirlitsmenn frá Bandaríkjunum og Evrópubandalaginu hafa skoðað aðstæður á Íslandi og neitað að samþykkja þær.

Nú geta menn talið, að hollustukröfur á þessum stöðum séu bara yfirskin til að vernda eigin landbúnað. Að minnsta kosti segja Bandaríkjamenn, að bann Evrópubandalagsins við innflutningi svokallaðs hormónakjöts sé dulbúin verndun landbúnaðar í bandalaginu.

Einn innlendur aðili velkist ekki í neinum vafa um, að hollustukröfur Evrópubandalagsins gegn hormónum í kjöti séu bara yfirskin. Það er íslenzka landbúnaðarráðuneytið, sem hefur fjallað um málið í einni af sínum mörgu og merku yfirlýsingum á síðustu mánuðum.

Ráðuneytið telur sig vita þetta af eigin vinnubrögðum. Það veit, að innflutningur erlends kjöts til Íslands er bannaður undir yfirskini hættu á gin- og klaufaveiki, en er í raun bannaður til að vernda íslenzkan landbúnað. Það telur, að aðrir hagi sér eins og það gerir.

Það er ekki heilbrigðisráðuneytið eða embættismenn á þess vegum, sem standa að banni við innflutningi á erlendu kjöti. Það eru landbúnaðarráðuneytið og embættismaður á þess vegum, sem framleiða útskýringar á, hvers vegna kauplágt fólk má ekki kaupa ódýrt kjöt.

Raunar hefur landbúnaðarráðuneytið verið að færa sig upp á skaftið og tekið að sér hreina hagsmunagæzlu fyrir landbúnaðinn á svipaðan hátt og félag iðnrekenda fyrir iðnaðinn, félag stórkaupmanna fyrir heildverzlunina og félag útvegsmanna fyrir útgerðina.

Þegar landbúnaðurinn verður fyrir kárínum á prenti, er það ekki lengur Stéttarsamband bænda, sem rekur upp ramakvein. Það er landbúnaðarráðuneytið, sem hefur tekið að sér hlutverkið að kæra vondra manna róg. Það er orðið að fimmtu herdeild í stjórnkerfinu.

Af ummælum formanns bandalags opinberra starfsmanna má ráða, að það sé fögur iðja að halda ódýrum matvælum frá fólki. Menn sjá fyrir sér íbúa iðnríkjanna beggja vegna Atlantshafsins engjast um af ofáti hormóna í kjöti. Merkilegt er, að engar dánarfréttir fylgja.

Þegar formaðurinn var í París um daginn, hefði hann getað komizt að raun um, að Frakkar hafa það bara nokkuð gott og kaupa þó kjöt og annan mat frá öllum heimshornum, nokkurn veginn eins og þeim þóknast, að nautakjöti frá Bandaríkjunum undanskildu.

Sá er helztur munur Íslands og nálægra landa, að matvæli kosta meira hér á landi, enda er innflutningur samkeppnisvöru bannaður hér, en annars staðar leyfður með léttvægum takmörkunum. Þessi munur leiðir til, að Íslendingar þurfa hærra kaup en ella.

Formaðurinn telur samt rangt að bæta kjör umbjóðenda sinna með því að veita þeim aðgang að jafngóðum, ódýrari matvælum. Hann virðist dæmigerður pólitíkus.

Jónas Kristjánsson

DV