Góð byrjun hjá þeim gamla

Greinar

Dagblaðið Tíminn er á gamals aldri farið að taka þátt í að ræða um, hversu mikið sé tjón okkar af landbúnaði. Kemst blaðið að þeirri niðurstöðu, að tölur DV um 10,5 milljarða árlegt tjón neytenda á ári séu 1,8 milljörðum of háar. Eftir ættu þá að standa 8,7 milljarðar.

Ofangreindar tölur eru um tjón neytenda af núverandi banni við innflutningi á ýmissi búvöru og takmörk unum á innflutningi sumrar annarrar búvöru. Blöðin eru að fjalla um, hvort neytendur mundu græða 8,7 eða 10,5 milljarða á frjálsum innflutningi búvöru.

Tíminn telur rangt að miða álagningu í heildsölu og smásölu á erlenda búvöru við prósenturnar, sem nú eru notaðar. Hann segir, að verzlunin þurfi hærra hlutfall, þegar grunnverðið lækkar. Vitnar blaðið í kaupmann, sem segist mundu þurfa hærra álagningarhlutfall.

Hafa verður í huga, að núverandi álagning milliliða í landbúnaði er hærri hér á landi en tíðkast í öðrum löndum. Hún er hér 15% í heildsölu og 20% í smásölu. DV taldi, að aukin samkeppni í kjölfar verzlunarfrelsis mundi halda innlendri álagningu í skefjum.

Ekki skiptir öllu máli, hvort neytendur mundu græða 8,7 milljarða eða 10,5 milljarða á frjálsri verzlun með innlenda og erlenda búvöru. Meira máli skiptir, að fjölmiðlar eru farnir að fjalla efnislega um einstök atriði útreikningsins í stað þess að neita staðreyndum.

Mestu máli skiptir þó, að sérhver fjölskylda í landinu hefði stórgróða af sínum hlut upphæðarinnar, hvort sem hún nemur 8,7 eða 10,5 milljörðum króna. Athyglisvert er einnig, að þetta atriði hefur að verulegu leyti farið framhjá samtökum neytenda og launafólks.

Ýmsir fleiri hafa tekið þátt í þessari umræðu, þar á meðal hagfræðingarnir Þorvaldur Gylfason og Markús Möller. Í stórum dráttum eru niðurstöðutölurnar svipaðar, 8,7­12,6 milljarðar, hjá öllum aðilum, þótt reikningsaðferðirnar séu að ýmsu leyti misjafnar.

Tölurnar fara að nokkru eftir álagningarprósentunni, sem miðað er við. Þær fara líka eftir, hvort útreikningarnir ná aðeins yfir afurðir kúa og kinda eða hvort einnig er tekið tillit til afurða fiðurfénaðar, svína og garðyrkju. Efnislega eru reikningsmenn sammála.

Gaman væri, að Tíminn tæki þátt í fleiri liðum umræðunnar um herkostnað þjóðarinnar af landbúnaði. Hann gæti til dæmis reiknað, hver yrði hagnaður skattgreiðenda af frjálsri innflutningsverzlun búvöru og hver yrði gjaldeyrissparnaður þjóðarinnar af henni.

DV hefur reiknað út, að skattgreiðendur mundu spara sér 4,3 milljarða á ári, ef ríkið hætti fjárhagslegum afskiptum af landbúnaði og gæfi verzlunina frjálsa. Tíminn gæti til dæmis reynt að lækka þessa tölu eitthvað og þá væntanlega með góðum rökstuðningi.

DV hefur einnig lagt saman tvo og tvo og komizt að raun um, að samanlagður sparnaður neytenda og skattgreiðenda mundi jafngilda 30.000 krónum á mánuði í launaumslagi fjögurra manna fjölskyldu. Dagblaðið Tíminn gæti kannski fengið 25.000 krónur úr dæminu.

DV hefur ennfremur reiknað út gjaldeyriskostnað við aðföng landbúnaðarins og gjaldeyriskostnað við að halda fólki við landbúnað í stað arðbærra starfa, sem afla gjaldeyris eða spara hann. Tíminn gæti kannski með góðum rökum klipið eitthvað af þeim tölum.

En menn eru alténd farnir að ræða af viti um stærsta vanda þjóðarinnar, þegar þeir eru farnir að rökræða, hvor talan sé réttari, 10,5 eða 8,7. Það er góð byrjun.

Jónas Kristjánsson

DV